„Við tjáum okkur ekki um lokaútspilið“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við tjáum okkur ekki um lokaútspilið“

17.05.2019 - 10:11

Höfundar

Nú þegar aðeins einn dagur er í úrslitakvöld Eurovision keppninnar eru margir farnir að spyrja sig hvort Hatari feli enn ás uppi í erminni sem þeir eigi eftir að spila fram. Hataramenn hafa hingað til lagt sig fram við að vekja athygli á málefnum Palestínu en útiloka ekki að lokabomban sé handan við hornið.

Í gær fór annar undanúrslitariðill Eurovision keppninnar fram og þótti hann afar sterkur og baráttan jöfn. Veðbankar hafa verið á fleygiferð síðan þá en Ísland fór nýlega úr fimmta sæti niður í áttunda svo það stefnir í harða samkeppni annað kvöld. Í gær var röð atriða á sviðinu á morgun kunngjörð en Ísland verður númer sautján á svið, á eftir Bretum og á undan Eistum. Hvorugt atriðið hefur vakið mikla athygli í ár svo það er nokkuð ljóst að öflugt atriði Hatara mun ekki fara framhjá nokkrum áhorfanda.

Síðan Hatari kom til Tel Aviv hefur hópurinn verið eltur á röndum af fjölmiðlafólki og aðdáendum og hefur þeim tekist að valda usla. Á fyrsta blaðamannafundinum lýstu þeir yfir andstöðu sinni á hernáminu í Palestínu en þeir hafa einnig heimsótt borgina Hebron á Vesturbakkanum þar sem 200.000 Palestínumenn búa umkringdir ísraelskum landnámsmönnum og eftirlitsstöðvum. Heimsókn þeirra vakti mikla athygli og fjölmiðlaumfjöllun.

Upp á síðkastið hafa þrátt fyrir þetta heyrst raddir frá Íslandi þar sem því er haldið fram að Hatari hafi enn ekki staðið við loforð sín um að nýta sér dagskrárvaldið til fullnustu og hafa þeir verið inntir eftir svörum við því hvenær stóra bomban sé væntanleg.

Björg Magnúsdóttir ræddi við þá Klemens og Matthías í Tel Aviv og spurði þá hvort þeir litu sjálfir svo á að þeir hefðu gert nóg til að vekja athygli á þeim málum sem þeim eru hugleikin. „Í sjálfu sér er aldrei nóg að gert. Þetta er eilífðarverkefni,“ svarar Matthías. „Við teljum okkur þó hafa gert talsvert. Ferð okkar til Hebron hefur vakið athygli og við höfum sett ákveðin mál á dagskrá í fjölmiðlum.“ Matthías segir þó að í raun sé ekki til sú bomba sem geti réttlætt ferð þeirra og þátttöku í keppninni.

„Við tjáum okkur samt ekkert um lokaútspilið,“ segir hann þó að lokum. Aðspurðir hvort þeir geti staðfest að lokaútspilið sé væntanlegt ítrekar Matthías: „Við tjáum okkur ekki um það.“

Viðtalið við Klemens og Matthías mun birtast í heild sinni í þættinum Telegram frá Tel Aviv, í umsjón Gísla Marteins Baldurssonar og Bjargar Magnúsdóttur, í kvöld klukkan 20:15, en brot af því má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.

Tengdar fréttir

Tónlist

Fólkið á götunni bjartsýnt fyrir hönd Hatara

Popptónlist

Hatari sautjándi á svið

Pistlar

Hatrið innlimað, úrbeinað og markaðssett?

Pistlar

Hatari, hvenær kemur bomban?