Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við sem höfum komið út mælum með því“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við sem höfum komið út mælum með því“

16.08.2019 - 13:35

Höfundar

Mikil eftirvænting ríkir ár hvert eftir því að bera augum Gleðigönguvagn Páls Óskars en hann hefur í gegnum tíðina verið með skrautlegasta móti. Það stefnir ekki í neina undantekningu frá þeirri reglu í ár. Palli leyfði þáttastjórnendum Sumarsins að skyggnast á bak við tjöldin.

Hinsegin dögum hefur verið fagnað í Reykjavík síðustu daga. Hátíðarhöldin standa á tímamótum um þessar mundir þar sem Hinsegin dagar eru haldnir í tuttugasta sinn. Dagskráin hefur að því tilefni verið lengri og veglegri í ár en undanfarið, en lokahnykkur hennar er sjálf Gleðigangan sem gengin verður á morgun í nítjánda sinn.

Líkt og síðustu ár verður einn skrautlegasti vagninn sem leiðir gönguna hannaður og smíðaður af poppgoðinu Páli Óskari. Hann trónir af gömlum vana á toppi vagnsins í íburðamiklum búningi, syngur sína helstu slagara og ásamt dansandi meðhjálpurum sínum sprengir konfettísprengjum yfir áhorfendur göngunnar. Í lokaþætti Sumarsins kíkti Atli Már í heimsókn til Palla og fékk að kíkja á undirbúninginn.

Vængirnir skreyttir litum hinsegin fjölskyldunnar

Popparinn kemur til með að svífa með göngunni á stærðarinnar fiðrildaskúlptúr sem hann er að leggja lokahönd á. Litamynstrið í vænghafi þess er samblanda af litum úr hinum fjölmörgu hinsegin fánum sem hópar undir regnhlífinni hafa sameinast um. Þeirra á meðal er trans fáninn, leðurfáninn sem brúkaður er af BDSM-hneigðum og intersex fáninn. Það tekur að minnsta kosti fjóra mánuði að undirbúa svona skúlptúr en það þarf að panta hráefnið, plotta og plana heilmikið áður en hafist er handa. 

Fiðrildið er að koma út úr púpu sinni en það er skírskotun í það þegar hinsegin fólk er um það bil að koma út úr skápnum. „Því fylgir svo mikill andlegur léttir að þú ert hreinlega ekki niðri á jörðinni,“ útskýrir Palli. „Þú sérð lífið í litum og upplifir alla þína tilveru á glænýjan hátt.“

Vonast til að gangan gefi fólki hugrekki til að koma út

Gangan leggur af stað klukkan 14 frá Hlemmi, fer þaðan niður Skólavörðu- og Klapparstíg, tekur svo krappa beygju inn Lækjargötu og endar í Hljómskálagarði þar sem hátíðardagskrá tekur við. „Gangan bíður sko ekki eftir neinum svo það er eins gott að laga á sér hárið í tæka tíð,“ minnir Páll á og segist vona að þessi skipulagði sýnileiki sem gangan er geti gefið þeim sem ekki eru komnir út úr skápnum hugrekki til að stíga skrefið.

„Það er auðvitað ekki hægt að knýja fólk út úr skápnum. Þú getur ekki tekið ótta fólks frá þeim. Ef þú ert fæddur og uppalinn við dómhörku frá þínum nánustu er ég ekkert hissa á að fólk sé í skápnum og kjósi það,“ segir hann alvarlegur en brosir svo og bætir við: „Við sem höfum nú þegar komið út mælum einfaldlega með því, ég lifi mjög góðu lífi.“

Hann segist hafa lært það af eigin reynslu að sannleikurinn sé sagna bestur. „Það eina sem þú getur gert er að fara þarna út og vera „bjútífúl.“ Vert þú í lagi og með sjálfsvirðinguna í jafnvægi. Það getur verið ævilangt verkefni en mikið brjálæðislega er það gaman.“

Atli Már Steinarsson kíkti á undibúning Gleðigöngunnar og ræddi við Pál Óskar. Viðtalið í heild má sjá með því að smella á spilarann efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Menningarefni

„Er þetta strákur með brjóst?“

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki

Segir Pence „illgjörðamann“ hinsegin fólks

Tónlist

„Enn og aftur takk Ed Sheeran“