„Við öndum töluvert léttar“

10.01.2020 - 21:30
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Höskuldur Birkir Erlingsson, aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra á Blönduósi, segir að aðstæður á slysstað þar sem rúta fór út af veginum nærri bænum Öxl síðdegis í dag hafi verið eins slæmar og verst geti orðið. „Við öndum töluvert léttar. Þetta hefði getað farið mun verr.“

Höskuldur Birkir lýsti aðstæðum þannig að fyrr í dag hefði snögghlánað. Þegar frysti aftur varð flughált og ofan í það var mjög hvasst. 49 voru í rútunni auk bílstjóra. 

Þrír farþegar voru fluttir með þyrlu Landhelgisgæslunnar á Landspítalann í Fossvogi og lenti þar rétt fyrir klukkan átta í kvöld. Einn var fluttur frá þyrlunni í hjólastól, annar í sjúkrabörum og sá þriðji virtist ganga frá þyrlunni. Myndirnar í spilaranum hér að ofan tók Björgvin Kolbeinsson tökumaður.

Höskuldur Birkir sagði í samtali við fréttastofu að sumir farþegarnir hefðu farið á sjúkrahúsið á Blönduósi til skoðunar og þeir og aðrir hefðu svo farið á fjöldahjálparstöð þar sem þeim er sinnt. 

Fólkið sem var í rútunni dvelur á Blönduósi í nótt.

Fréttin var uppfærð 23:13.

Mynd: Jóhannes Sigurðsson / RÚV
Viðtal við Höskuld Birki Erlingsson aðalvarðstjóra.