Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Við lifum á tímum upplýsingaóreiðu“

13.09.2018 - 21:15
Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðiprófessor. - Mynd: RÚV / RÚV
Falsfréttir og samsæriskenningar vaða uppi á samfélagsmiðlum og hafa mikil áhrif á vestræn samfélög. Í nágrannalöndunum eru til dæmis nettrölla-verksmiðjur.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor gaf á dögunum út bókina Conspiracy and Populism eða Samsæriskenningar og popúlismi. Í bókinni tengir hann með fræðilegum hætti áhrif samsæriskenninga og falsfrétta við uppgang popúlistaflokka í stjórnmálum á Vesturlöndum. Rætt var við Eirík og Elfu Ýr Gylfadóttur, framkvæmdastjóra Fjölmiðlanefndar í Kastljósi kvöldsins. 

Hefur tíðast í 30 ár en aukist að undanförnu

Samsæriskenningar, popúlismi og ekki síður rangfærslur hafa verið einkennandi í stjórnmálum nútímans á Vesturlöndum, að sögn Eiríks. „Þetta á sér stað á hverjum degi og síðustu 30 ár hefur þessi tegund af stjórnmálum verið að ryðja sér til rúms og aldrei meira en síðustu ár, beggja vegna Atlantsála.“

Samkvæmt rannsóknum er falsfréttum dreift sex sinnum meira en ábyrgum fréttum. Eiríkur segir það lýsa tíðarandanum. „Hliðvarsla hefðbundinna fréttamiðla 20. aldarinnar er farin og við lifum á tímum upplýsingaóreiðu, frekar en því að fólk geti nálgast réttar upplýsingar.“ Hann segir stjórnmálamenn hafa nýtt sér þetta ástand til að ala á ótta í garð ýmissa hópa fólks og stillt sjálfum sér upp sem vörn, annars vegar gegn utanaðkomandi ógn og hins vegar gegn elítunni sem hafi brugðist almenningi. 

Óttast að Vestræn stjórnvöld ætli að grafa undan landinu

Við gerð bókarinnar tók Eiríkur viðtöl við ráðamenn í Moskvu en fjallað hefur verið um svokallaðar trölla-verksmiðjur í Rússlandi. Eiríkur segir að í Rússlandi sé sú samsæriskenning lífseig að Vesturveldi ætli að grafa undan rússneska ríkinu. Stjórnvöld í Kreml hafi breytt út hugmyndir um fjöllistahópinn Pussy Riot þess efnis að þau séu útsendarar erlendra leyniþjónusta. Það er óhugsandi í huga þeirra að ungar, rússneskar stúlkur mótmæli með þessum hætti. Búinn var til erlendur óvinur sem sagðar eru margir fréttir af. Eftir það er réttlætanlegt að fangelsa þær, fara illa með þær og brjóta á mannréttindum þeirra.“ Það sé skylda stjórnvalda að bregðast við þessum erlendu afskiptum, að sögn Eiríks.

Hafa bæði dreift falsfréttum um stjórnmál og bólusetningar

Til eru fræðimenn sem hafa gengið svo langt að segja að þetta sé upplýsingahernaður, að sögn Elfu Ýrar. „Ein af ástæðunum er sú að upplýsingaóreiða og falsfréttir beinast að því að skapa sundrung og að fólk geti ekki treyst því sem er að koma frá opinberum stofnunum, þinginu og kosningum,“ segir hún. Þá sé vitað að sömu rússnesku aðilarnir og dreifðu falsfréttum í aðdraganda forsetakosninga í Bandaríkjunum árið 2016 hafi síðar orðið uppvísir að því að dreifa röngum fréttum um bólusetningar. 

Fyrst fór að bera á rússneskum trölla-verksmiðjum eftir innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014. Elfa segir vitað að fólkið sem vinnur þar sé á 12 tíma vöktum og taki virkan þátt í umræðum á samfélagsmiðlum og dreifi þar röngum upplýsingum, myndum og myndböndum. 

Er fólk á Íslandi sem stundar þetta? „Við vitum ekki hvort þau eru hér. Það hefur ekki verið kortlagt. Við vitum ekki stöðu mála hér. Kannski af því að við erum eyja og aðeins einangruð. Við sjáum að þetta gerðist fyrst í Finnlandi og dreifðist svo vestar.“

Mikið magn falsfrétta getur haft áhrif á skoðanir fólks

Efla bendir á að þegar mikið af röngum upplýsingum komist í umferð geti það mótað skoðanir fólks, það geti haft áhrif á lýðræðislega þátttöku og valdið „pólariseringu“ og því að fólk geti ekki komist að neinni sameiginlegri niðurstöðu í stórum málum. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV