„Við erum í miðjum kafaldsbyl“

Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar. - Mynd: RÚV / RÚV
Staða ferðaþjónustunnar, stærstu atvinnugreinar landsins, hefur gjörbreyst á fáum vikum vegna útbreiðslu COVID-19 faraldursins, sem enginn veit hvort verði enn í gangi í sumar, þegar háannatími í ferðaþjónustu ætti að ganga í garð. Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að líklega eigi á milli 25.000 og 30.000 starfsmenn ferðaþjónustufyrirtækja eftir að, annað hvort missa starf sitt eða þurfa að fara í hlutastarf, ef samdrátturinn vari fram á sumar.

„Þetta eru í rauninni þúsundir fyrirtækja sem um er að ræða og ég myndi lýsa stöðunni þannig að við erum í miðjum kafaldsbyl. Við sjáum ekkert fram á veginn og ekkert til hliðanna. Og erum að reyna að átta okkur á stöðunni og það er gríðarlega erfitt af því að við vitum ekkert hvernig þessi faraldur kemur til með að þróast og hvenær þetta tekur enda. Þannig að óvissan er algjör og óvissa er alltaf mjög erfið í fyrirtækjarekstri,“ sagði Bjarnheiður í Kastljósi kvöldsins. 

Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Ferðamenn hafa rétt til að afbóka í ljósi stöðunnar án þess að þurfa að greiða fyrir. Bjarnheiður segir að hjá sumum fyrirtækjum sé ferðamönnum boðið að seinka komu sinni. Staðan núna sé ekki góð og það berist aðeins ein og ein bókun. Ef allt væri eins og það ætti að vera væri bókunartímabilið í hámarki, en svo er svo sannarlega ekki. 

Hlutabætur mikilvægt skref 

Ríkið samþykkti á dögunum að greiða starfsfólki sem er í skertu starfshlutfalli vegna þrenginganna, atvinnuleysisbætur að hluta. Fólk getur núna verið í allt niður í 25 prósenta starfshlutfalli og fengið svo bætur á móti. Bjarnheiður segir að þetta hafi verið mikilvægt skref hjá ríkisstjórninni og að það hafi verið mjög gott hve skjótt var brugðist við. Ella hefði orðið mikið um fjöldauppsagnir um næstu mánaðamót. 

Hvað eiga margir eftir að missa vinnuna ef þetta dregst inn í sumarið? „Mér þykir leiðinlegt að segja það en það verður stór hluti þeirra sem starfar í ferðaþjónustu sem munu annað hvort missa vinnuna eða fara inn í þetta hlutabótakerfi og við erum að tala þá um 25 til 30 þúsund manns.“ Ef samdrátturinn vari fram á sumar eigi mörg fyrirtæki eftir að neyðast til að leggja upp laupana. 

Segir samdráttinn vera 100%

Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, sagði í grein í Fréttablaðinu í gær að hún velti því fyrir, hvort ekki ætti að fresta launahækkunum í ljósi aðstæðna. Bjarnheiður tekur undir þau sjónarmið. Samdrátturinn hjá fyrirtækjum sé 100 prósent og engar tekjur komi inn. Fyrirtæki ráði hugsanlega tímabundið við stöðuna en að til lengri tíma litið sé þörf á frekari aðgerðum stjórnvalda til hjálpar greininni. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi