Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Við erum búin að þjösnast á vistkerfunum“

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Ósjálfbær landnýting og loftslagsbreytingar ógna matvælaöryggi á jörðinni. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna. Sérfræðingur við landbúnaðarháskóla Íslands segir mikilvægt að breyta neysluháttum. Bætt landnotkun getur aukið viðnámsþol jarðar gagnvart loftslagshamförum af mannavöldum en haldi ósjálfbær nýting áfram, eykur það á vandann.

Við eigum allt okkar undir jörðinni, frjósöm mold er undirstaða þess að við getum haft í okkur og á. VIð höfum ekki farið nógu vel með landið og núna eru loftslagsbreytingar farnar að hafa neikvæð áhrif á það og grafa undan matvælaöryggi. Landið getur hjálpað okkur í baráttunni gegn loftslagsbreytingum ef við göngum betur um það en ef við gerum það ekki getur losun frá því ýtt verulega undir vandann.

„Við erum búin að þjösnast á þessum vistkerfum“

Land er annar stærsti kolefnisgeymir jarðar, á eftir hafinu. Land í góðu ástandi bindur kolefni en rýrt land losar það. Í skýrslunni segir að loftslagsbreytingar séu þegar farnar að grafa undan fæðuöryggi. Uppskera rýrni og næringargildi sömuleiðis. Þetta er vítahringur. „Við erum búin að þjösnast á þessum vistkerfum mjög lengi og það er alltaf að stækka það land sem við tökum til ræktunar vegna fólksfjölgunar. Loftslagsbreytingar hraða svo þessu ferli því með þeim er frjósemi á mörgum svæðum að minnka og það kallar á að meira land er tekið undir ræktun. Þetta helst í hendur,“ segir Ólafur Gestur Arnalds, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands. Loftslagsbreytingar valdi líka þurrkum og jarðvegsrofi sem rýri frjósemi og ýti frekar undir loftslagsbreytingar.  

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson
Ólafur Arnalds

Landnotkun aukist fordæmalaust síðustu áratugi

Á síðustu sextíu árum höfum við lagt land sem samsvarar tveimur þriðju af flatarmáli Ástralíu undir landbúnað. Áburðarnotkun hefur tvöfaldast og það sama á við um metanlosun frá jórturdýrum. Landnotkun hefur síðustu áratugi aukist hraðar en nokkru sinni fyrr, nú er svo komið að maðurinn nýtir með einhverjum hætti 72% þess lands sem er ekki undir ís, það land sem við nýtum ekki er að mestu leyti gróðurlaust.

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Ekki bara fjöldinn sem telur

Mannkynið er fjórfalt fjölmennara en fyrir hundrað árum en það er ekki bara fjöldinn sem veldur aukinni eftirspurn eftir matvælum, neyslan hefur líka breyst. Meðaljarðarbúi neytir tvöfalt meira kjöts nú en fyrir sextíu árum. Vísindamennirnir 107 sem komu að skýrslunni segja mikla kjötneyslu Vesturlandabúa eitt af því sem knýr loftslagsbreytingar áfram. Þá má nefna að enn er 25 til 30% alls matar sóað.  

Mynd með færslu
 Mynd: rúv

Skýrsluhöfundar mæla með því að við bætum landnotkun, stöndum vörð um regnskóga og mýrlendi og borðum minna af dýraafurðum. Með því mætti efla viðnámsþol jarðar, sporna gegn hungri og fátækt, efla vistkerfi og draga úr útrýmingu tegunda. „Við þurfum að breyta neysluháttum töluvert, það er alveg ljóst,“ segir Ólafur.