„Við erum báðir Elvis og báðir undirleikarar“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Við erum báðir Elvis og báðir undirleikarar“

30.08.2019 - 16:20

Höfundar

Dúettinn GG blús er skipaður tveimur Guðmundum sem hafa marga fjöruna sopið þegar kemur að rokktónlist. Guðmundur Jónsson var gítarleikari Sálarinnar sálugu og Guðmundur Gunnlaugsson trommari Sixties. Nú syngja þeir báðir og leika undir.

Dúettinn GG blús er rokkaður blúsdúett frá Álftanesi og leit fyrsta plata þeirra tvímenninga dagsins ljós í þessum mánuði. Þarna eru engir aukvisar á ferðinni en um gítarleik og söng sér Guðmundur Jónsson, sem leikið hefur með Sálinni hans Jóns míns, Nykri og Vestanáttinni meðal annarra og með honum slær taktinn Guðmundur Gunnlaugsson, sem spilað hefur á trommur með hljómsveitum á borð við Kentár, Sixties, Jötunuxa og Rokksveit Jóns Ólafs. Útgáfutónleikar GG blús verða í kvöld á Hard Rock, nánari upplýsingar má finna hér en til að hita upp komu þeir félagar í heimsókn í Stúdíó 12. 

Mynd: RÚV / RÚV
GG blús flytur lagið Cradle Rock eftir Rory Gallagher.

„Eitt af því sem okkur finnst svo gaman er að taka þessi lög bara tveir og láta þau virka. Okkur finnst það ganga bara ágætlega og upphaflega þá stóð það aldrei til að gera þetta svona,“ segir Guðmundur Jónsson sem minnist þess að þeir nafnar hafi alltaf ætlað sér fleiri í verkefni. „Við ætluðum bara að leika okkur að djamma og svona og fá fleiri með en það nennir enginn að æfa lengur í dag. Við erum ansi æfingaglaðir við nafnarnir og við ákváðum að gera þetta bara tveir. Fáum okkur bara nokkra pedala í viðbót og málið dautt,“ segir Guðmundur og bendir á alla fótstignu gítarpedalana við fætur sér.

„Við erum búnir að vera að æfa þessa plötu fyrir tónleikana í kvöld og fyrir utan að spila og syngja og hafa hugann við það allt saman, þá er þetta smá svona pedaladans, eins og ég kalla þetta. Maður þarf svolítið að læra inn á það. Þetta eru svona tveir til þrír pedalar sem ég þarf að stíga á á milli kafla,“ segir Guðmundur Jónsson. Hvað varð svo til þess að þessir tveir fóru að vinna saman? „Það er nú bara vegna þess að ég flutti út á Álftanes fyrir þremur árum síðan. Gummi býr þar, er borinn og barnfæddur þarna nokkrun veginn og með flott æfingahúsnæði. Svo var það einn daginn að okkur leiddist, ákváðum að hittast í æfingahúsnæðinu. Það er nú ekki flóknara en það,“ segir Gummi Jóns.

Mynd: RÚV / RÚV
GG blús - Touching the Void

„Á ákveðnu sviði þá liggja raddirnar alveg eins. Þetta er mjög skemmtilegt,“ segir Guðmundur Gunnlaugsson trommari og söngvari GG blús sem hefur hingað til ekki verið þekktur fyrir að syngja aðalrödd. „Til að byrja með var það mjög erfitt. Ég var svona bakraddakarl í mörg ár en svo fór ég að syngja aðalrödd fyrir nokkrum árum með Rokksveit Jóns Ólafs. Þá byrjaði maður fyrst að vera feiminn við sjálfan sig,“ segir Guðmundur og bætir nafni hans Jónsson því við að þetta sé vissulega skemmtileg útfærsla. „Við erum báðir Elvis og báðir undirleikarar,“ segir Guðmundur Jónsson.

Mynd: RÚV / RÚV
GG blús - Broken Dreams

„Þetta er bara það sem kom, báðir höfum við mjög gaman að því að syngja. Það eru svo áhöld um hversu góðir við erum sem söngvarar,“ segir Jónsson. „Þegar við ákváðum að vera bara tveir, þá fórum við að útsetja lögin. Við höfum verið mikið að spila síðasta ár, ábreiður á knæpum bæjarins til að móta þetta og það hefur verið áskorunin að hugsa hvernig við getum gert þetta áhugavert. Þá svona fundum við út, út á hvað þetta gengur. Síðan er það bara eins og gengur að manni langar til að gera eitthvað skapandi, semja og búa eitthvað til. Þá fór maður að róta í haugnum og sjá hvort það væri einhver músik sem passaði í þetta,“ segir Guðmundur sem ásamt nafna sínum gaf út plötuna Punch nú í ágúst.

Hljóðrásirnar voru í umsjá Markúsar Hjaltasonar og myndstjórn í höndum Gísla Berg. Það var Ólafur Páll Gunnarsson sem tók á móti GG blús í Stúdíói 12.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Þetta eru þrír hljómar og sannleikurinn“

Tónlist

Ætla að muna að minnast ekki á Wham!

Tónlist

„Verður húllumhæ og læti en engir flugeldar“

Tónlist

„Svo reynum við að gera þetta almennilega“