Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

„Við erum alltaf í stöðu fórnarlambsins“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við erum alltaf í stöðu fórnarlambsins“

03.07.2018 - 14:51

Höfundar

Elísabet Jökulsdóttir stýrir leiklestri á verki föður síns, Jökuls Jakobssonar, á fimmtudag í Iðnó. Verkið nefnist Sonur skóarans og dóttir bakarans og Elísabet segir það eiga mikið erindi við samtímann þrátt fyrir að hafa verið skrifað fyrir fjörutíu árum.

Í verkinu er meðal annars sagt frá börnum í búrum, stríði úti í heimi og átökum um umhverfismál. „Það gerist í íslensku sjávarplássi þar sem er allt á vonarvöl. Það er búið að loka fabrikkunni og það eru allir á sósíalnum,“ segir Elísabet í viðtali við Morgunútvarpið. Þá kemur týndur sonur aftur heim í þorpið með erlenda kunningja sína sem eiga listisnekkjur. Þeir lofa þorpsbúum gulli og grænum skógum með því að opna aftur fabrikkuna en fljótlega kemur í ljós að þar er framleitt annað en vítamín eins og lagt var upp með. Inn í þetta fléttast svo Víetnamstríðið en lítil stúlka sem að flýr það endar í þorpinu í leit að spiladósinni sinni. „Þetta er mjög magnað leikrit og andstæður, ríki kallinn gegn lítilli stúlku að leita að spiladós, stóru öflin og einstaklingurinn andspænis lífinu, töfrunum og laginu,“ segir Elísabet.

Hún telur að verkið tali jafnvel enn betur inn í okkar samtíma en þegar það var skrifað. „Til dæmis með Hvalárvirkjun, og líka á Reyðarfirði, Bakka og Helguvík, það er eins og við séum bara rafmagnslaus alltaf. Að við höngum hérna á vonarvöl, séum búin að veiða síðasta fiskinn úr sjónum og höggva síðasta tréð, og eina von okkar sé að kreista dropana úr síðasta fossinum?“ segir Elísabet og er mikið niðri fyrir. „Við erum alltaf í stöðu fórnarlambsins og nýlenduþjóðarinnar. Það dregur úr okkur alla orku og sköpunarkraft að vera eilíft í hlutverki fórnarlambsins. Fórnarlambið bíður bara, fer inn í sig, tuðar og vælir.“

Þá segir Elísabet margs konar líkindi með Sýrlandsstríðinu og Víetnamstríðinu. „Við höldum alltaf að við séum stikkfrí. Þetta er svo yfirþyrmandi að maður fer bara að hugsa um að vaska upp. Það eru börn að drukkna í Miðjarðarhafinu á hverjum degi, er hægt að synda þar lengur? Það er svo stappfullt af líkum flóttamanna,“ segir Elísabet. Hún var að heimsækja leiði Jökuls Jakobssonar föður síns á dögunum þegar þessar hugsanir sóttu á hana og þá skyndilega laust þessu gamla leikriti föður hennar í höfuðið á henni. „Þetta hljómar náttúrulega eins og í draugasögu, en ég fór út í kirkjugarð og þar datt mér þetta í hug við leiðið hans.“ Þetta sé þeirra innlegg til umræðunnar. „En það er samt ekki bara um hræðilega atburði. Eins og eins persónan segir: „Það klárast alltaf allt nema ástin.“

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Ætlaði að verða Nóbelshöfundur

Leiklist

Fagmennska og fúsk

Leiklist

Texti Elísabetar Jökuls perla sýningarinnar

Leiklist

Ástin er sjálfsmynd