Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Við erum alltaf að skálda lífið  

Mynd: RÚV / RÚV

Við erum alltaf að skálda lífið  

28.03.2020 - 11:20

Höfundar

Auður Jónsdóttir frumsýndi sýninguna Auður og Auður á Sögulofti Landnámsseturisins í Borgarnesi á dögunum en það fjallar um samband hennar við ömmu hennar, Auði Sveinsdóttur Laxness.  

Sýningin byggist aðallega á bók Auðar, Ósjálfrátt, sem var sjálfsævisöguleg skáldsaga en nokkuð nærri veruleikanum að sögn Auðar. „Ég stíg kannski skrefi lengra í þessari frásögn. Þetta er mikið til saga um samband okkar ömmu og hvernig rithöfundur verður til. Þetta er óður til ömmu minnar, til þess hvað hún var sterkur margslunginn persónuleiki. Þetta var líka leið til að skilja hana. Að skrifa finnst mér vera leið til að skilja. Svo er líka svo gott  að segja sögur til að heimsækja fortíðina. Það er eins og ég hitti hana þegar ég segi frá henni, þá er ég að tala við hana.“ 

Auður segir að mörk minninga og sagna séu oft ógreinileg; sumar sögur séu svo máttugar að þær hreinelga verði að minningum. „Já, við erum öll rithöfundar. Við erum alltaf að skálda lífið eins og hentar persónuleika okkar að sjá það. Við erum að alltaf aðeins að skálda þegar við segjum sögur úr lífi okkar því það veit enginn 100 prósent hvað gerðist hvenær.“ 

Sagan er hispurslaus og bersögul. Auður segir það erfitt að afhjúpa sig fyrir framan áhorfendur en líka gaman. „Því þá finn ég viðbrögðin strax. Það er gott þegar maður segir eitthvað hræðilegt um sjálfan sig og fólk hlær. Svo er líka skrítið að þótt þetta sé sjálfsævisöguleg bók sem ég skrifaði fyrir mörgum árum sé ég söguna samt öðruvísi, því núna er ég orðin eldri. “ 

Tímabundið hlé hefur verið gert á sýningum Auðar á Sögulofti en Landnámssetursins en auglýst verður þegar þær hefjast á ný. Horfa má á viðtal við Auði hér að ofan.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

„Þöggun er svo algeng í fjölskyldum“

Bókmenntir

Keypti óvart gulláskrift á Tinder eftir skilnaðinn

Bókmenntir

Þrotabúskapur ástarinnar

Bókmenntir

Óraunverulegt að ganga í gegnum skilnað