Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Við erum allir áhugamenn um vesen“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við erum allir áhugamenn um vesen“

24.07.2019 - 14:12

Höfundar

Hljómsveitin Geirfuglarnir er þekkt fyrir sitt fjöruga polkapopp þar sem harmonikka, mandólín og kontrabassi eru hve mest áberandi. Um þessa mundir fagna þeir tuttugu ára afmæli plötunnar Byrjaðu í dag að elska og til að fagna þeim tímamótum leggja þeir land undir fót og reyna að komast í smá vesen.

„Lauk er það rétt og hár, eins og maður segir. Við ætluðum að reyna að ljúga því að það væru tíu ár en þetta er víst bláköld staðreynd,“ segir Halldór Gylfason söngvari Geirfuglanna um þann raunveruleika að lagið Byrjaðu í dag að elska með hljómsveitinni Geirfuglum væri nú tuttugu ára gamalt í ár. Lagið er á samnefndri plötu sem kom út í nóvember árið 1999 en ári fyrr hafði hljómsveitin gefið sína fyrstu plötu, Drit. „Við vonuðumst nú til þess að vera í útlöndum, vera búnir að meika það og vera ógeðslega sætir ... eða sumir okkar eru það svo sem ennþá,“ segir Halldór um þær vonir og væntingar Geirfugla um stöðuna tuttugu árum eftir útgáfu plötunnar. „Við héldum kannski að við yrðum orðnir ríkir og frægir en það er nú ekki raunin, kannski að við yrðum komnir á stærra svið. Það var alltaf planið,“ segir Halldór sem hlakkar til að stíga á svið í hlöðunni í Havarí.

Geirfuglarnir spila útdauða tónlist í takt við tíðarandann að eigin sögn og eru langt í frá útdauðir þrátt fyrir að spila jafnvel minna en áður. Framundan er alvöru hlöðuball austur á Karlsstöðum í Berufirði. „Við erum að fara alla leið austur í Berufjörð, ætlum að leggja land undir hjólbarða og skemmta í Havarí hjá Svavari Prins Póló og Berglindi, konu hans. Við hlökkum mikið til,“ segir Stefán Már Magnússon gítarleikari Geirfugla. „Þetta verður hlöðuball, svona alvöru sveitaball. Við komumst að því að það er eiginlega það eina sem við getum gert almennilega. Við erum skárstir í því,“ segir Ragnar Helgi Ólafsson annar gítaleikari hljómsveitarinnar og undir þetta tekur Halldór. „Við fyllum kannski ekki Egilshöll en það er mögulegt að við fáum nokkra til að mæta á hlöðuball.“

Titillag plötunnar Byrjaðu í dag að elska er eitt vinsælasta lag Geirfuglanna.

„Við höfum aldrei spilað þarna áður og aldrei á Austurlandi. Eins og staðan er núna hjá okkur þá spilum við svona einu sinni á ári, helst úti á landi. Við vorum á Flateyri í fyrra, Flatey fyrir tveimur árum, Þorlákshöfn þar áður og núna er það Havarí. Við reynum að búa til ferðalag úr þessu, þar sem við getum verið saman, leikið okkur og spilað í leiðinni,“ segir Halldór Gylfason og segir þá Geirfugla vilja ferðast með fjölskyldurnar og skapa skemmtilegar minningar. „Það vill nefnilega svo heppilega til að við kunnum svolítið vel við hvern annan,“ bætir Ragnar Helgi við. „Við erum líka allir áhugamenn um vesen og þeim mun meira vesen, þeim mun meira spennandi er það fyrir okkur,“ segir Stefán Már. Ragnar Helgi tekur undir orð Stefáns og rifjar upp um leið vesenið við að ferja kontrabassann út í Flatey forðum. „Núna er það sjö tíma akstur, það er svona húkkurinn í þessu núna,“ segir Stefán Már.

Geirfuglarnir gáfu út nýtt lag á dögunum sem farið er að hljóma í sífellu meðal annars á Rás 2. Lagið heitir því áhugaverða nafni Fulla frænkan. „Við spiluðum mikið í brúðkaupum á árum áður og þá var alltaf þessi týpa, fulla frænkan. Hress kona á sextugsaldri. Hún hélt alltaf ræðu svona rétt undir miðnætti, svona hálftímalanga ræðu,“ segir Freyr Eyjólfsson mandólínleikari sveitarinnar. „Þetta er frænkan sem hélt ræðu um alla kærastana sem brúðurin hafði átt áður en hún kynntist brúðgumanum. Annars ekkert bögg, sæt og skemmtileg kona en bara aðeins á undan veislunni,“ segir Freyr. 

Geirfuglarnir mættu í hljóðver í Síðdegisútvarpið, ræddu við Guðmund Pálsson og Andra Frey Viðarsson og léku þar lagið Fulla frænkan. Viðtalið og flutninginn má heyra með því að smella á myndina hér efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Popptónlist

„Alvöru rokksveitir, þær borða hjónabandssælu“

Popptónlist

Havarí tilkynnir sumardagskrána