Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Við erum að setja fram neyðarkall“

27.11.2017 - 20:40
Mynd: RÚV / RÚV
„Það sem við erum að setja fram er neyðarkall," segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir sem stofnaði Facebookhóp þar sem konur innan sviðslistar og kvikmyndagerðar hafa deilt reynslusögum af kynferðisofbeldi og áreitni. Sögurnar voru birtar nafnlausar í kvöld ásamt undirskriftalista þar sem 584 konur krefjast þess að bundinn verði endir á ómenninguna sem grasserar innan stéttarinnar.

Þórdís stofnaði hópinn á þriðjudaginn síðasta. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Nú eru rúmlega þúsund konur komnar í hópinn og hafa deilt sláandi sögum af áreitni og ofbeldi. Nokkrar segja frá fullfrömdum nauðgunum en flestar frá óviðeigandi káfi, kossum og athugasemdum sem þær búa við í bransanum.

„Sögurnar sem hafa verið að berast í okkar hóp lýsa kerfislægum viðhorfsvanda sem virðist loða við hvern krók og kima í okkar bransa og okkar stétt. Það virðist vera að konur séu ekki neins staðar óhultar fyrir áreiti og ofbeldi og mismunun sem byggir á kynferði. Þar má telja allt frá intökum í nám þar sem lýst hefur verið ofbeldi í inntökuprófum þar sem konur eru að stíga sín fyrst skref inn í nám. Síðan í gegnum námið, síðan eftir útskrift og eftir að þær komast út á starfsvettvang. Bara hvar sem sögum er við komið, þar eru konur að lýsa því að þær hafi orðið fyrir allt frá káfi, kynferðislegum athugasemdum yfir í alvarleg atvik á borð við fullframdar nauðganir sem hafa átt sér stað í tengslum við störf þeirra," sagði Þórdís í Kastljósþætti kvöldsins. Hér að ofan sjá þáttinn í heild sinni.

Þórdís segist ekki geta upplýst um hvort nauðganir sem sviðslistakonur hafi greint frá á síðustu dögum hafi ratað í kæruferli. „Það er mjög mikil þöggun um þessi mál og úrræðaleysi um hvert á að leita þegar valdbeiting á sér stað," segir hún og tekur fram að konur óttist ítök og frægðarsól þeirra sem í hlut eiga.

Sem dæmi um hversu allt-um-lykjandi vandinn sé nefnir Þórdís eina sögu sem barst nafnlaus inn í hópinn.

„Nokkur atriði úr íslensku leikhúsi í gegnum árin.
* Tæknimaðurinn sem kemur aftan að mér seinnipart dags á skrifstofugangi, grípur um bæði brjóst mín og klípur fast. 
* Tónlistarmaðurinn sem ég mæti á leið á salernið á bar eftir sýningu, tekur um höfuð mér og rekur tunguna upp í mig.
* Leikarinn sem fer að leggja það í vana sinn að laumast aftan að mér baksviðs á vissum stöðum í sýningunni og nudda mig og strjúka. Saklaust, en við sífelldar endurtekningar fór að verða óþægilegt. Eitt skiptið fóru hendur hans innanklæða á mjög svo viðkvæman stað, ég fraus og gat ekkert gert stödd rétt utan við leiksvið þar sem róleg sena var í gangi.
* Yfirmaðurinn, eldri en faðir minn, sem þrábiður mig á samkomu á vegum leikhússins að fara í sleik við sig. "Gerðu það, bara einu sinni."

„Þarna er dæmi um konu sem er hvergi óhult," segir Þórdís og tekur fram að næstum allar konur verði fyrir áreitni einhvern tíma á sínum ferli innan sviðslistastéttarinnar. Konurnar krefjast þess að forráðamenn leikhúsa, framleiðslufyrirtækja og yfirvöld taki fast á vandanum.