Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

„Við erum að gefast upp á ungu fólki“

Mynd: rúv / rúv
„Við erum að gefast upp á ungu fólki.“ Þetta segir Vigdís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Virk, starfsendurhæfingarsjóðs. Færst hefur í aukana að ungt fólk fái örorkumat, einkum vegna geðraskana. Ungt fólk með geðraskanir leitar í auknum mæli til Virk en Vigdís segir það ekki alltaf tilbúið til þess að fara í starfsendurhæfingu því það hafi ekki fengið grunnþjónustu í geðheilbrigðiskerfinu.

Tíu af hverjum þúsund ungum körlum

Samkvæmt tölum Tryggingastofnunar eru tæplega 700 Íslendingar undir þrítugu með örorkumat. Geðraskanir eru orsökin í um 70% tilfella. Færst hefur í aukana að karlar á aldrinum 18-29 fái örorkulífeyri vegna geðraskana. Í dag á það við rétt tæplega tíu af hverjum þúsund körlum á þessum aldri. Fyrir tíu árum átti þetta við um 7 af hverjum þúsund körlum á aldrinum 18 til 29 ára. Tíðnin hefur aukist um 40%. Örorka af völdum geðraskana er fátíðari meðal ungra kvenna og tíðnin hefur lítið aukist síðastliðin tíu ár, einungis um 0,03 prósentustig. 

„Það er þannig að þegar ungt fólk er að fara inn á örorku í þessum mæli, án þess að hafa fengið viðeigandi heilbrigðisþjónustu og nægilega langan endurhæfingarferil með tryggri framfærslu, þá erum við svolítið að gefast upp á fólki. Við verðum að hjálpa þessu fólki betur. Það er bara mjög nauðsynlegt.“

Segir Vigdís. Við séum að missa stóran hóp af ungu fólki á örorku og staðreyndin sé sú að flestir þeir sem fara á örorkulífeyri séu á örorkulífeyri út ævina. Hún telur að breyta þurfi framfærslukerfinu þannig að það styðji betur við þennan hóp. „Þá er ég ekki að tala um að fólk eigi ekki að fá stuðning eða framfærslu, vissulega þarf það það. Fólk þarf að fá trygga framfærslu þegar það er að kljást við veikindi, ná bata og sinna sinni endurhæfingu, það er mjög mikilvægt. Við megum ekki gefast upp á þessu fólki og það er það sem aðrar þjóðir hafa gert, þær hafa verið að breyta sínum kerfum í þá átt að gefast ekki upp á fólki, að vinna áfram með unga fólkið, jafnvel þó að það taki nokkur ár.“

Hún segir að í Danmörku heyri það til algerra undantekninga að fólk undir fertugu fái örorkumat. Fólki er tryggð önnur framfærsla en á sama tíma sé því haldið í endurhæfingar- og virkniúrræðum.  

Breytt samfélag - 18 ára örorkumat

Samfélagið hafi breyst og örorkulífeyriskerfið þurfi að breytast í takt við það. Hér hefur örorkumatið ekki breyst frá árinu 1999. „Það segir bara ýmislegt að það sé frá 1999, að það hafi ekki breyst síðan þá. Það hafa verið skipaðir hópar og nefndir, útbúnar margar skýrslur og gerðar tillögur til breytinga og það er bara afar slæmt að við séum á þessum stað í dag. Við höfum verið að vinna að því að þróa starfsgetumat hér hjá Virk og ég veit að það er kominn af stað vinnuhópur inni í ráðuneytinu, við eigum fulltrúa í honum, vonandi fer því eitthvað að gerast í þessum málum. Að þessu sögðu vil ég líka leggja áherslu á það að matið sjálft er bara lítill hluti af þessu. Það er auðvitað mikilvægt að við horfum á getu fólks en ekki vangetu en við þurfum að horfa á kerfið í heild sinni,“ segir Vigdís. 

Það þurfi í raun þjóðarátak, skoða þurfi málið út frá mörgum hliðum, þátt heilbrigðiskerfisins, skólakerfisins, endurhæfingar og framfærslukerfis og hvernig þessi kerfi vinna saman. „ Við þurfum að hugsa þetta kerfi svolítið upp á nýtt. Það er það sem aðrar þjóðir eru að gera líka því þetta er ekki íslenskt vandamál.“ 

Starfsgetumatsákvæði kippt út

Áður en frumvarp til breytinga á lögum um almannatryggingar varð að lögum síðastliðið haust ákvað Eygló Harðardóttir, þá félags- og húsnæðismálaráðherra, að kippa út ákvæði um að tekið yrði upp starfsgetumat í stað örorkumats í þrjú ár. Frumvarpið miðaði við að fólk með meira en hálfa starfsgetu fengi engar bætur. Öryrkjabandalagið gagnrýndi ákvæðið, sagði útfærslu Eyglóar ekki tryggja öryrkjum framfærslu, það þyrfti fleiri þrep í matið. Öryrkjar gætu lent í fátæktargildru fengju þeir ekki vinnu með hálfar bætur. Öryrkjabandalagið hefur ekki sett sig upp á móti starfsgetumati. 

Endurhæfing dýr, örorka dýrari

Vigdís segir að endurhæfing sé dýr og geti tekið langan tíma en það kosti samfélagið vel á annað hundrað milljóna þegar ung manneskja fer á örorkulífeyri. Auðvitað séu dæmi um að fólk geti ekki unnið og verði að vera á örorkulífeyri, það sé þó ekki alltaf raunin og það borgi sig að láta reyna á endurhæfingarúrræði, að fjárfesta í fólki, þó það taki tíma.

Fjarvera frá vinnumarkaði auki líkur á sjálfsvígum

Vigdís segir rannsóknir sýna að löng fjarvera frá vinnumarkaði ógni heilsu og lífsgæðum fólks. Þátttaka á vinnumarkaði hafi almennt jákvæð áhrif á andlega og líkamlega heilsu fólks - einnig þeirra sem glími við varanlegan heilsubrest. Þá hafi niðurstöður erlendra rannsókna sýnt að ungir menn sem hafa verið atvinnulausir í sex mánuði séu sex sinnum líklegri en aðrir til að taka eigið líf. 

Starfsendurhæfing ekki viðeigandi ef fólk hefur ekki fengið lágmarksþjónustu í geðheilbrigðiskerfinu

Færst hefur í aukana að ungt fólk með geðraskanir leiti til Virk, stundum hefur það verið á vinnumarkaði áður, stundum ekki. Oft er það þó ekki tilbúið til þess að hefja starfsendurhæfingu. „Þau eru að koma til okkar alltof snemma því þau hafa ekki fengið geðheilbrigðisþjónustu við hæfi. Í þessu samhengi er ofsalega mikilvægt að efla geðheilbrigðisþjónustu og efla heilsugæsluna. Það skiptir gríðarlega miklu máli því starfsendurhæfing er ekki viðeigandi eða raunhæf fyrr en fólk hefur fengið ákveðna lágmarksþjónustu innan heilbrigðiskerfisins. Þetta er mjög mikilvægt.“

Þörfin fyrir sálfræðiþjónustu brýn

Þörf ungs fólks fyrir sálfræðiþjónustu er brýn að mati Agnesar Agnarsdóttur, fagstjóra sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt stefnu og aðgerðaáætlun Alþingis í geðheilbrigðismálum, sem samþykkt var í fyrra, á fólk að fá aðgang að gagnreyndri sálfræðimeðferð við algengum geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíða og áfallastreitu, á 50% heilsugæslustöðva í lok þessa árs og 90% heilsugæslustöðva í lok ársins 2019. Enn sem komið er bjóða sálfræðingar á heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu einungis upp á einstaklingsviðtöl fyrir börn yngri en 18 ára.  Agnes segir að til standi að stíga skref í þá átt að auka aðgengi fólks á aldrinum 18 til 30 ára að einstaklingsmeðferð á næstunni. Þörfin sé brýn. Nýlega var fyrsti sálfræðingurinn sem á að sinna fullorðinsþjónustu ráðinn, til stendur að ráða tvo til viðbótar í ár og fleiri á næsta ári. Við erum að stíga lítil skref en þróunin er ekki nógu hröð og fjármagn sem fylgdi áætluninni hefur ekki dugað til, segir Agnes. Ungt fólk þarf því að leita til einkaaðila og greiða á annan tug þúsunda fyrir hvert viðtal.

Skertur opnunartími í rúm sjö ár

Sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum er ætlað að grípa fólk með tiltölulega vægan vanda. En hvað ef vandinn er alvarlegur?  Bráðamóttaka geðsviðs Landspítala er aðeins opin hluta úr degi. Opnunartíminn var skertur árið 2010 úr 15 tímum á virkum dögum niður í sjö og úr níu tímum í fjóra um helgar. Hvort og hvernig þetta tvennt tengist aukinni tíðni örorku meðal ungra karla er óljóst.