Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Við bjóðum okkur fram í þessa vinnu“

29.08.2017 - 16:20
Mynd: EPA / EPA
Hvernig er dagur í lífi trúboðans? Hvernig er að vera trúboði á Íslandi? Trevor Jakobsson og Johan Johansen, trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu, ræddu um starfsemi sína

Trevor Jakobsson og Johan Johansen hringdu í gær dyrabjöllunni hjá þónokkrum Íslendingum, eins og þeir gera jú á hverjum degi víðs vegar um landið. Ég var ein þeirra sem fékk handahófskennda hringingu um kvöldmatarleytið í gær. Fyrstu viðbrögð voru að vísa þeim á dyr – og var það nánast eins og ósjálfrátt viðbragð. Þegar einhver vill kynna þig fyrir trú sinni þá segir þú nei. Þú passar upp á réttindi þín og gagnrýna hugsun og segir nei við þá sem vilja koma sínum hugmyndum yfir á þig. Nei, og því fyrr sem þú neitar, því betra, því sterkari ertu, því sjálfstæðari ertu.

En er ég spjallaði við þá í dyrasímanum áttaði ég mig á því að ég veit ekkert um trú þeirra, mormónakirkjuna - Kirkju Jesú Krists hinna síðari daga heilögu. Nú annað en orðróminn um fjölkvæni og óhuggulega heimildarmynd um trúarleiðtoga í Utah sem virðast ekki ganga heill til skógar, eða svona samkvæmt almennum skilningi okkar á geðheilsu.

Ég hafði svo sem ekkert að gera, og hverju hafði ég að tapa? Ég bauð þeim inn. Áttaði mig fljótt á því að ég var með ótal ómeðvitaðar hugmyndir um trúboða almennt – veit þó vart hvaðan þær koma. Mögulega frá sama stað og fordómar almennt. Fáfræði og skortur á löngun til þess að kynnast trú þeirra og starfi.

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Gyða  - Anna Gyða
Öldungur Johan Johansen og Öldungur Trevor Jakobsson

Lestin kynntist trúboðunum Trevor og Johan í gær. Þeir sögðu okkur nánar frá raunum trúboðans. Hvernig er að vera trúboði á Íslandi? Hvernig er dagur í lífi trúboðans? Hvers vegna heillast þeir að þessari trú fremur en annarri? Við veltum síðan fyrir okkur hugmyndum sagnfræðingsins Yuval Noah Harari um skáldaðann veruleika mannsins. 

„Við bjóðum okkur fram í þessa vinnu“

„Við erum ekki skyldugir til að sinna starfi trúboða, við bjóðum okkur fram í þessa vinnu. Þá getum við farið um allan heim,“ segir Johan sem hefur starfað sem trúboði á Íslandi í tvö ár. Trevor hefur þó aðeins verið hér á landi í fjóra mánuði. Johan segir mér að hann fari bráðum aftur heim og að þá taki hans venjulega líf við á ný. „Þá höldum við bara áfram með líf okkar. Ég er pípari,“ segir Johan mér. 

Dagur í lífi trúboðans 

Ég spyr þá hvernig Íslendingar taki í trúboðastarfsemi þeirra. „Mér finnst margir bara mjög kurteisir og reiðubúnir í spjall. Þrátt fyrir að þeir séu ekki beint strangtrúaðir, þá eru þeir samt opnir fyrir nýjum hugmyndum og að heyra í okkur“ segir Johan. Um hversdagslegt líf trúboðans segja þeir að þeir vakni um hálfsjöleytið, stundi líkamsrækt, borði, fari í sturtu, læri meira um Jesú Krist - bæði á eigin nótum sem og í hóp. „Vanalega förum við síðan út klukkan tíu og erum úti allan daginn að tala við fólk um guð og Jesú Krist,“ segir Trevor. „Stundum býst maður ekki við því að neinn opni fyrir okkur en stundum fær maður skemmtilegt ævintýri úr deginum.“

Hafa lært talsvert af fólki á Íslandi

Johan segist hafa lært mikið af fólki hér á Íslandi sem trúboði. „Í gær vorum við að tala við ungan mann sem býr hér á landi en er frá Póllandi. Hann talaði um trúarbrögð almennt og fékk mig til þess að hugsa um þann sannleika sem maður getur fundið í öðrum trúarbrögðum. Mér fannst þetta rosa áhugavert því ég veit ég mun örugglega ekki skipta um trú en ég mun eflaust læra mikið frá öðrum trúarbrögðum. Spjall okkar gerði mig fúsari til að skoða önnur trúarbrögð,“ sagði Johan. 

„Get ekki lýst því hve dýrmætt þetta er“

Þeir segja það svolítið erfitt að vera að heiman frá fjölskyldunum en það að miðla trú sinni og reynslu geri það allt þess virði. „Að deila því sem hefur fært mér og fjölskyldu minni hamingju í lífum okkar, það tækifæri er dýrmætt. Ég get ekki lýst hve dýrmætt þetta er,“ segir Trevor og segir síðan frá því að er hann snýr aftur heim til Utah í Bandaríkjunum ætli hann líklega að leggja tónlist fyrir sig, enda lærður trommari. ,,Mér finnst djasstónlist æðisleg,“ segir hann. Heyra má viðtalið í heildsinni í hljóðbrotinu hér að ofan. Er þeir kvöddu, héldu þeir á vit ævintýranna - næsti áfangastaður var næstu dyr á stigaganginum. 

Ísraelski sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari gaf út metsölu bókina Sapiens: A Brief History of Humankind árið 2015. Erfitt er að lýsa eiginlegu innihaldi doðrantsins en Harari skoðar mannkynssöguna og ýmsar vinsælar kenningar um þróun mannsins, með heimspekilegum hætti. Hann tekur fyrir stórar spurningar og svarar þeim með vísindalegum hætti. Sá háttur hans er þó ekki af hefðbundnu tagi. Honum tekst einhvern veginn að fljúga langt langt langt í burtu frá jörðinni og rýna þaðan í allt sem á henni er að finna; umhverfi, lönd, menn, dýr, samfélög, fræðikerfi, hugmyndafræði, mýtur, trúarbrögð, samskipti manna og samspil kynja. Rit hans hefur nú verið þýtt á 45 tungumál og unnið til ýmissa verðlauna. Hún sætir þó einnig gagnrýni. Í rýni sinni fyrir Washington Post bendir þróunarmannfræðingurinn Avi Tuschman t.d. á ýmislegt en bætir þó við að bók Hararis sé mikilvæg lesning fyrir djúpþenkjandi og sjálfsskoðandi Sapiens. 

Hugmyndir Hararis um skáldaðan veruleika mannsins eru athyglisverðar. Hann segir að nánast allt í umhverfi okkar sé skáldað, tilbúningur. Eitthvað sem við höfum búið sjálf til – en það sé ekki til í raun og veru. Við bjuggum það til, skálduðum veruleika upp úr engu; lög og reglur, peninga, kirkjuna, hugmyndir okkar um hvað gerir lífið þess virði að lifa fyrir og svo má lengi telja. Hann skrifar: ,,Tveir kaþólikkar sem hafa aldrei hist geta saman háð baráttu fyrir heilögu málefni vegna þess að þeir trúa því báðir að Guð hafi komið í líki manns og látið krossfesta sig til að frelsa okkur frá syndum okkar. Ríki byggir tilvist sína á sameiginlegri hugmynd um þjóðina. Tveir Serbar sem hafa aldrei hist eru reiðubúnir til að hætta lífi sínu hvor fyrir annan vegna þess að þeir trúa á tilvist serbnesku þjóðarinnar, serbnesku ættjörðina og serbneska fánann. Réttarkerfi byggir tilvist sína á sameiginlegri hugmynd um lög og reglur. Tveir lögmenn sem hafa aldrei hist geta tekið saman höndum og varið ókunnugan viðskiptavin vegna þess að þeir trúa á tilvist laga, réttlætis og mannréttinda. Samt sem áður fyrirfinnast þessir hlutir ekki utan sagnanna sem menn hafa búið til og sagt hver öðrum. Það eru engir guðir í alheiminum, engar þjóðir, engir peningar, engin mannréttindi, engin lög, og ekkert réttlæti, utan sameiginlegs ímyndunarafls mannanna“.

Vissulega hafa mýtur mismunandi áhrif á manninn en eftir að hafa hleypt trúboðunum inn, velti ég fyrir mér hvort hugmyndir þeirra um tilvist mannsins og tilgang eigi eitthvað minna rétt á sér en margt annað í okkar samfélagi – því ef við tökum skref tilbaka eins og sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari, þá eru vissulega flestar hugmyndir okkar tilbúningur, trúarbrögð jafnt sem annað. 

annags's picture
Anna Gyða Sigurgísladóttir
dagskrárgerðarmaður