Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Vickram Bedi búinn að játa

21.11.2012 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Vickram Bedi hefur játað á sig stórfelldan þjófnað í umfangsmiklu fjársvikamáli í New York ríki. Hann viðurkennir að hafa svikið um 20 milljónir Bandaríkjadala út úr tónskáldinu og auðmanninum Roger Davidsson. Dómur verður kveðinn upp yfir Bedi 22. janúar.

Helga Ingvarsdóttir, fyrrverandi sambýliskona hans, játaði á sig stórfelldan þjófnað 2010. Dómur yfir henni verður kveðinn upp 29. janúar.

Spunnu lygasögu til að hræða Davidsson

Á sex ára tímabili, frá 2004-2010 notuðu Bedi og Helga tölvufyrirtæki sitt Datalink Computer Products til að svíkja féð smám saman af Davidsson með því að skuldfæra á krítakort hans mánaðarlega.

Í fréttatilkynningu frá saksóknaranum í málinu kemur fram að parið hafi hrætt Davidsson og talið honum trú um hinar ýmsu hættur sem áttu að hafa steðjað að honum, þar á meðal að hann gæti tapað tónlist sinni sem vistuð var í tölvur og að hann og fjölskylda hans væru í mikilli hættu.

Vírus frá Hondúras og prestar tengdir Opus Dei

Málið hófst árið 2004 þegar Davidsson fór með vírussýkta tölvu sína í viðgerð hjá Datalink. Þar staðfesti Bedi að tölvan væri sýkt en sagði að vírusinn væri afar skæður og hefði einnig sýkt tölvur fyrirtækisins. Bedi sagði Davidsson að hann byggi yfir tækni og getu til að finna hvar vírusinn væri upprunninn og að fjölskylda Davidssons væri í mikilli hættu. Þannig sannfærði Bedi manninn um að borga háar upphæðir fyrir að gögnunum af tölvunni yrði bjargað og fyrir vernd gegn líkamstjóni. Bedi sagði síðan manninum að vírusinn mætti rekja til tölvu í Hondúras. Frændi hans væri liðsforingi í indverska hernum og gæti því flogið á indverskri herflugvél til Hondúras og sótt harða diskinn með vírusnum. Þá sagði hann að frændinn hefði komist yfir upplýsingar um að pólskir prestar tengdir Opus Dei vildu vinna Davidsson mein. Ofan í súpuna væri leyniþjónusta Bandaríkjanna að fylgjast með honum. Bedi og Helga voru handtekin í byrjun nóvember 2010.

Bedi á yfir höfði sér átta til 25 ára fangelsi.