Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

VG og Sjálfstæðisflokkur stærst og jöfn

13.10.2017 - 18:17
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vinstri græn og Sjálfstæðisflokkurinn mælast með mest og næstum jafnt fylgi samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Samfylkingin bætir við sig fylgi og Miðflokkurinn mælist með 9% fylgi og fengi sex þingmenn.

Fylgi stærstu flokkanna breytist ekki mikið milli kannana. Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur með 23,7% og Vinstri græn með 23%. Framsóknarflokkurinn  fengi samkvæmt könnuninni 7,2%, og lækkar um nærri þrjú prósentustig. Samfylkingin bætir hins vegar við sig um fjögurra prósentustiga fylgi og fengi 13,4%. 4,8% segjast myndu kjósa Viðreisn og bætir flokkurinn aðeins við sig, en Björt framtíð  mælist með 3%. Píratar mælast með 8,8%. Miðflokkurinn, sem var stofnaður undir lok síðasta könnunartímabils fengi samkvæmt Þjóðarpúlsinum  9,5%,  en gengi Flokks fólksins dalar um fjögur prósentustig og fengi flokkurinn 5,7%.

0,5% segjast myndu kjósa Dögun, 0,2% Alþýðufylkinguna og 0,1% Íslensku þjóðfylkinguna.

Yrðu þetta úrslit kosninganna síðar í þessum mánuði fengi Sjálfstæðisflokkurinn 16 þingmenn, jafn marga og Vinstri græn. Framsóknarflokkurinn fengi 5 þingmenn, Samfylkingin 9, Píratar fengju 6 þingmenn, Viðreisn einn, Flokkur fólksins fengi 4 þingmenn og Miðflokkurinn 6 menn á þing. Eins og undanfarið í könnunum virðist eini möguleikinn  á myndun tveggja flokka stjórnar vera Sjálfstæðisflokkur og Vinstri græn. 

Könnunin var netkönnun gerð dagna 29. september til 12. október. Heildarúrtaksstærð var 3.876, einstdaklingar valdir af handahófi úr viðmhorfshópi Gallup og þátttökuhlutfall 59,2% og vikmörk 0,8 til 0,9%. 13% tóku ekki afstöðu eða neituðu að gefa hana upp og nærri 7% sögðust myndu skila auðu eða ekki kjósa.

 

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV