Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

VG enn stærst í könnun Fréttablaðsins

11.10.2017 - 04:58
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Vinstri græn njóta yfirburðafylgis í skoðanakönnun Fréttablaðsins, Stöðvar 2 og Vísis, sem birt er á forsíðu Fréttablaðsins í dag. Nærri þrír af hverju tíu þeirra sem þátt tóku í könnuninni hyggjast kjósa þau.

Um fjórðungur þeirra 804 sem náðist í sagðist vera óákveðinn eða svaraði því ekki hverja þeir ætla að kjósa. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 29,9 prósent ætla að kjósa Vinstri græn. Sjálfstæðisflokkurinn nýtur fylgis 22,2 prósenta þeirra sem tóku afstöðu í könnuninni og Miðflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn í könnuninni með 9,2 prósenta fylgi. Píratar og Samfylking eru nærri hvor öðrum, Píratar með 8,5 prósenta fylgi og Samfylkingin 8,3. 7,1 prósent sögðust ætla að kjósa Framsóknarflokkinn, 6,1 prósent Flokk fólksins, en stjórnarflokkarnir fyrrverandi, Björt framtíð og Viðreisn, njóta aðeins 3,6 og 3,3 prósenta fylgis í könnuninni.

Hringt var í 1.322 í gær þar til náðist í 804 samkvæmt lagskiptu úrtaki. Þeir sem svöruðu fengu spurninguna: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag? Ef ekki fékkst svar var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Og ef enn þurfti að spyrja var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk?

66 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu til spurningarinnar, um tíu prósent hugðust ekki ætla að kjósa eða skila auðu, 13 prósent sögðust óákveðin og um 11 prósent svöruðu ekki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV