Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

VG ekki verið minni í tíu ár

Mynd með færslu
 Mynd:
Vinstrihreyfingin - grænt framboð tapar átta þingmönnum og fengi aðeins sex samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallups. Flokkurinn hefur ekki verið minni í tæp tíu ár. Björt framtíð fengi hins vegar níu þingmenn ef gengið yrði til kosninga nú.

Hinn stjórnarflokkurinn, Samfylkingin, myndi tapa sjö þingmönnum yrðu kosningar í dag og fengi þrettán. Samtals tapa því stjórnarflokkarnir fimmtán þingmönnum.

Hins vegar munar litlu á níunda þingmanni Bjartrar framtíðar og fjórtánda þingmanni Samfylkingarinnar, það þyrfti sumsé lítið að breytast til að 14.þingmaður Samfylkingarinnar kæmist inn á þing á kostnað níunda manns Bjartrar framtíðar.

Sjálfstæðisflokkurinn fengi 26 þingmenn ef kosið yrði í dag og bætir við sig tíu þingmönnum sem er sami fjöldi og hann var með fyrir Alþingiskosningarnar 2009. Framsóknarflokkurinn fengi níu þingmenn miðað við þjóðarpúls Gallups sem er sami fjöldi og í kosningunum fyrir fjórum árum.