Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Vetrarsólstöður í dag

21.12.2017 - 08:18
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Vetrarsólstöður verða klukkan 16:28 í dag 21. desember. Þá er stysti dagur ársins á norðurhveli jarðar.

Stysti dagur ársins

Sólin er þá syðst og lægst á himinhvolfinu, dagurinn stystur en nóttin lengst fyrir íbúa á norðurhveli eins og segir á Stjörnufræðivefnum. Á suðurhveli jarðar er þessu öfugt farið, þar eru sumarsólstöður og lengsti dagur ársins. Í Reykjavík rís sólin kl. 11:22 en sest kl. 15:29 svo fullrar birtu nýtur í rétt rúmar fjórar klukkustundir.

Hátíð til forna

Frá og með í dag hækkar sólin á himni  hvern dag og það birtir og dagana lengir. Vetrarsólstöður var mesta hátíð fornaldar á norðurhveli. Þá fögnuðu menn endurkomu sólarinnar með fórnum og veisluhöldum. Búist er við að menn komi saman við hið forna mannvirki Stonehenge norðvestan við  Salisbury á Englandi í dag eins og undanfarin ár. Þessi forni steinhringur frá um þrjú þúsund fyrir Krist er talinn tengjast hátíðarhöldum við vetrarsólstöður. Hjá honum hafa nýlega fundist bein dýra sem flutt hafa verið um langan veg víðs vegar að á Bretlandseyjum að talið er til fórna og veisluhalda  við vetrarsólstöður.

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV
Þorvaldur Friðriksson
Fréttastofa RÚV