Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Vetrarfærð um nær allt land

14.01.2020 - 12:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Veðurstofan varar við áframhaldandi vonskuveðri á norðvestanverðu landinu og miðhálendinu. Vetrarfærð er um nær allt land og vegir lokaðir. Skólahald og ferðir Strætó falla niður. Þá er röskun á innanlandsflugi.

Stórhríð er á Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og við Breiðafiörð og appelsínugul viðvörun í gildi fram á nótt. Hviður fara í yfir 40 metra á sekúndu í vindstrengjum við fjöll. Það er snjókoma og skafrenningur með lélegu skyggni, ekkert ferðaveður og hætta á foktjóni. Gul viðvörun er í gildi í öðrum landshlutum og verður áfram fram eftir degi.

Vegir víða lokaðir

Vetrarfærð er á landinu öllu og vegir víða lokaðir. Opið er um Hellisheiði og Þrengsli en vegum gæti verði lokað með stuttum fyrirvara. Lokað er um Mosfellsheiði. Bálhvasst er á Kjalarnesi en opið. Enn er lokað í Bröttubrekku og Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum eru vegir víðast hvar ófærir eða lokaðir og óvíst um mokstur. Á Norðurlandi er víða lokað um fjallvegi. Beðið er með mokstur um Hófaskarð vegna veðurs og Fjarðarheiði er ófær. Þá er enn lokað frá Kirkjubæjarklaustri að Jökulsárlóni og undir Eyjafjöllum.

Skólahald og ferðir strætó falla niður

Nú er nærri stórstreymt og má búast við óvenjuhárri sjávarstöðu á flóði. Einnig getur verið há ölduhæð sums staðar við landið. Strætó ekur á Suðurnesjum og á milli Reykjavíkur og Hvolsvallar, allur annar akstur á landsbyggðinni fellur niður í dag. Skólahald fellur niður í flestum skólum á Norðurlandi vestra og á Kjalarnesi.

Rólegt hjá björgunarsveitum

Þrátt fyrir óveðrið hefur verið rólegt hjá björgunarsveitum og lítið um útköll. Örfáar tilkynningar hafa borist en helstu verkefni hafa verið lokanir vega og að aðstoða ökumenn.

Ekkert hefur verið flogið innanlands í dag og næst verður athugað með flug upp úr kl. 13. Millilandaflug hefur hins vegar verið á áætlun og lítur út fyrir að það verði áfram í dag.