Vestfirðir keyrðir á varaafli

10.01.2020 - 15:08
Mynd með færslu
 Mynd: Hafdís Sturlaugsdóttir
Geiradalslína sem liggur á milli Geiradals og Glerárskóga leysti út rétt fyrir klukkan þrjú. Við það fór rafmagn af öllum Vestfjörðum. Rafmagn komst fljótlega á aftur en íbúar á Hólmavík, í Reykhólasveit og hluta Barðastrandar urðu að bíða ögn lengur en aðrir. Rafmagnskerfið á Vestfjörðum er nú keyrt á varaafli.

Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Landsnets og tilkynningu á vef Orkubús Vestfjarða. Straumlaust var frá tengivirkinu í Geiradal og það olli rafmagnsleysinu.

Landsnet hefur verið með sérstaka vakt vegna hættu á rafmagnstruflunum og rafmagnsleysi. Sognslína 2 og Selfosslína 2 biluðu í gærkvöld og í nótt en þær komust í fullan rekstur í morgun. Þær rafmagnstruflanir ollu ekki rafmagnsleysi.

Fréttin var uppfærð 15:17.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV