Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Vestfirðingar hamingjusamastir

13.06.2017 - 08:09
Mynd með færslu
 Mynd: pixabay.com
Vestfirðingar eru hamingjusamastir allra Íslendinga og nota minna af þunglyndislyfjum en íbúar annars staðar á landinu að því er fram kemur í nýjum lýðheilsuvísum Landlæknis.

Landlæknir birtir lýðheilsuvísa árlega og eru þeir safn mælikvarða sem gefa vísbendingu um heilsu og líðan þjóðarinnar. Þeir eru útgefnir eftir landshlutum og er bent á hvernig hver og einn landshluti sker sig úr frá öðrum landshlutum eða landsmeðaltali.

Vestfirðingar nota til að mynda frekar virkan ferðamáta í vinnu og skóla en aðrir landsmenn. Þeir neyta minnst allra landsmanna af grænmeti og ávöxtum og er hlutfall nemenda í 5.-7. bekk sem hefur orðið fyrir stríðni eða einelti yfir landsmeðaltali. Þrátt fyrir að segjast vera hamingjusamastir meta hlutfallslega fleiri Vestfirðingar andlega heilsu sína sæmilega eða lélega en landsmenn að meðaltali. 

Suðurnesjabúar drekka meira gos

Suðurnesjabúar neyta meira af gosdrykkjum en nokkrir aðrir íbúar á landinu. Streita fullorðinna er yfir landsmeðaltali og langvinn lungnateppa er algengari en annars staðar. Ölvunardrykkja framhaldsskólanema er undir landsmeðaltali og sömuleiðs hlutfall framhaldsskólanema sem hefur prófað kannabis.

Hvergi hafa þó færri ungmenni prófað kannabisefni en á Vesturlandi. Þar er jafnframt lægsta hlutfall framhaldsskólanema sem segist oft hafa verið einmanna. Hins vegar er hlutfall barna í 8.- 10. bekk sem tekur þátt í skipulöguðu íþróttastarfi lægst. Fleiri fullorðnir meta andlega heilsu lélega en annars staðar á landinu og færri konur mæta í leghálskrabbameinsskoðun.

Minnsta hamingjan á Norðurlandi

Norðlendingar neyta minna gosdrykkja en landsmenn að meðaltali og reykingar eru undir meðaltali. Hamingja fullorðinna er minnst og þunglyndislyfjanotkun yfir landsmeðaltali. Sýklalyfjanotkun barna undir 5 ára er hins vegar minni en landsmeðaltal. Þá er líkamsmynd stúlkna í 8.- 10. bekk er neikvæðari en meðaltal á landinu. 

Fullorðnir á austurlandi eru ólíklegastir til þess að neyta áfengis í óhófi enda eru áhættudrykkja fullorðinna þar hlutfallslega minnst á landinu. Hlutfallslega fleiri meta andlega heilsu sæmilega eða lélega og er þunglyndislyfjanotkun yfir landsmeðaltali. Þá sofa framhaldsskólanemar of stutt og sjúkrahúslegur vegna lungnateppu eru undir landsmeðaltali hjá körlum en yfir hjá konum. Þá er notkun blóðsykurslækkandi lyfja yfir landsmeðaltali.

Sunnlendingar bólusetja minnst

Sunnlendingar reykja meira en íbúar annars staðar á landinu. Færri framhaldsskólanemar sofa of stutt og fleiri fullorðnir nota virkan ferðamáta í vinnu eða skóla. Þá eru sýklalyfjaávísanir barna undir 5 ára aldri undir landsmeðaltali en bólusetningar 12 mánaða barna eru undir landsmeðaltali. Þá er hamingja unglinga og líkamsmynd unglingsstúlkna undir landsmeðaltali.

Á höfuðborgarsvæðinu tekur hærra hlutfall barna í 8. - 10. bekk þátt í skipulögðu íþróttastarfi og hlutfallslega fleiri börn ná lágmarksviðmiðið í lesskilningi í 10. bekk. Hlutfallslega fleiri framhaldsskólanemar sofa of stutt. Þá er áhættudrykkja fullorðinna er meiri og íbúar leita frekar til sérfræðilækna en heimilislækna en íbúar annars staðar. 

sigridurda's picture
Sigríður Dögg Auðunsdóttir