„Verulega umfangsmikið“ og flókið mansal

21.11.2019 - 13:44
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Pakistanskur maður, sem grunaður er um umfangsmikið mansal og skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi farbann. Þá ber honum að tilkynna sig á lögreglustöðinni við Hverfisgötu vikulega. Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi og farbanni með hléum síðan í október í fyrra. Rannsókn lögreglu stendur enn yfir en málið þykir með eindæmum umfangsmikið og flókið.

Vinnumansal, fjársvik, peningaþvætti og skjalafals

Lögreglan telur rökstuddan grun um að maðurinn sé viðriðinn mansal hér á landi, hafi skipulagt smygl á tugum manna til og frá Íslandi og hafi „nýtt sér nauðung erlendra ríkisborgara í hagnaðarskyni,“ með því að útvega þeim fölsuð skilríki gegn gjaldi og starf með ólögmætum hætti. Hann hafi haft upplýsingar um að auðvelt væri að fá mannúðarleyfi hér á landi með því að segjast vera samkynhneigður karlmaður.  Þá skipta tekjur mannsins hér á landi tugum milljóna á um það bil tveimur árum, sem sé ekki í samræmi við stöðu hans sem hælisleitandi og uppgefnar tekjur.

Lögregluna fór að gruna að ekki væri allt með felldu þegar breskur ríkisborgari var stöðvaður á Keflavíkurflugvelli í september í fyrra. Lögreglumenn könnuðust við nafnið á vegabréfi mannsins en nokkru áður hafði annar maður framvísað sama vegabréfi á leið til Kanada. Maðurinn tjáði lögreglunni að pakistanski maðurinn, sem nú sætir farbanni, hefði ætlað að sækja hann í flugstöðina. Maðurinn var svo handtekinn ásamt tveimur samlöndum sínum við komu til Keflavíkur í október í fyrra. Í kjölfarið var gerð húsleit í íbúð hans við Snorrabraut þar sem hópur fólks var handtekinn, lagt var hald á fjölda vegabréfa og fleira. 

Maðurinn er borinn ýmsum sökum á mörgum ákvæðum hegningarlaga. Hann er til að mynda grunaður um að villa á sér heimildir, grunaður um skjalafals, skipulagða glæpastarfsemi, mansal, fjársvik og peningaþvætti. Auk þess eru borin á hann brot á útlendingalögum og lögum um atvinnuréttindi útlendinga. Brotin kunna að varða allt að tólf ára fangelsi. 

Gagnrýna tafir á rannsókn og kalla eftir að henni ljúki

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi, farbanni og tilkynningarskyldu með hléum frá því í október í fyrra. 7. nóvember síðastliðinn staðfesti Héraðsdómur Reykjaness beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum þess efnis að manninum yrði skylt að halda sig á landinu frá 23. október til 18. desember. Þá var honum gert að tilkynna sig við lögreglu vikulega. Maðurinn kærði úrskurð Héraðsdóms til Landsréttar og krafðist þess að úrskurðurinn yrði felldur úr gildi. Landsréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms 11. nóvember síðastliðinn.

Í úrskurði Landsréttar er þrýst á lögreglu að ljúka við rannsókn málsins. Tafirnar skerði mikilsverð réttindi mannsins. Vegna þess langa tíma sem hann hefur sætt farbanni og verið gert að halda sig á ákveðnum stað telur dómurinn brýnt að rannsókn málsins haldi áfram án tafa.

Gleymdu ítrekað að óska eftir framlengingu farbanns

Í kröfu mannsins er gagnrýnt að rannsókn málsins hafi dregist óhóflega. Enn sé langt í land þó lögreglan hafi ítrekað haldið því fram að rannsókn sé á lokametrunum. Þá hafi lögregla í þrígang gleymt að krefjast áframhaldandi farbanns, sem maðurinn telur sýna fram á hve forgangur og mikilvægi málsins sé lítið. 

Maðurinn sætti ekki farbanni af neinu tagi í fimm daga í janúar, í rúma þrjátíu daga í júlí og ágúst - og loks einn dag í október. Hann hafi því haft fjölmörg tækifæri til að koma sér úr landi og undan hugsanlegri málsókn, hefði vilji hans staðið til þess. Þvert á móti hafi hann reynt að þrýsta á lögreglustjóra að hraða rannsókn málsins.

Þá segir í kröfunni að málið hafi verið manninum þungbært. Maðurinn hafi Þá flúið heimaland sitt vegna ofsókna sem hann hafi sætt vegna kynhneigðar sinnar og fengið dvalarleyfi hér á landi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Hann hafi engin áform um að yfirgefa landið. Maðurinn hafi fasta búsetu hér ásamt sambýlismanni sínum, leggi stund á íslensku og hafi sótt um ríkisborgararétt. Með hliðsjón af því telur hann að engin lagaskilyrði séu fyrir því að hefta ferðafrelsi hans. 

Einstaklega umfangsmikið og flókið mál

Í greinargerð lögreglu segir að í málinu hafi 15 stöðu sakbornings. Haldlagðir munir séu alls 130 talsins, 127 skýrslur hafi verið gerðar í málinu og að skjöl málsins séu 188. Rannsókn málsins sé því verulega umfangsmikil, flækjustig sé hátt og eigi sér fá fordæmi.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar um að maðurinn hafi árið 2018 sótt um dvalarleyfi í Svíþjóð, ítrekað sótt um áritun til Bretland og gert ítrekaðar tilraunir til að komast þangað en ávallt verið vísað frá. Þetta hafi hann gert þrátt fyrir að vera með alþjóðlega vernd á Íslandi. Lögreglan telur því ljóst að maðurinn muni fara úr landi eða komast undan málsókn eða fullnustu refsingar verði honum ekki gert að sæta tilkynningarskyldu eða farbanni. Hann hafi lítið sem ekkert gert til að aðstoða lögreglu við rannsókn, verið ósamvinnuþýður, gefið ótrúverðugar skýringar og flækt málið.

Til marks um flækjustig málsins hafi maðurinn haldið fram röngum upplýsingum um nafn sitt og fæðingardag í allt að tólf vikur.  Alls hafi maðurinn gefið upp þrjá mismunandi fæðingardaga við yfirvöld á Íslandi. Þá hafi hann auk þess gefið yfirvöldum upp rangar upplýsingar um fjölskylduhagi, uppruna og fleira.

Lögreglan segir rannsókn málsins langt á veg komna en ekki lokið. Reynt hafi verið eftir bestu getu að hraða rannsókn en það hafi ekki tekist vegna umfangs málsins.

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi