Versta veður í Vík í áratugi

02.11.2012 - 12:17
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Mikill veðurofsi er í Vík í Mýrdal og í nágrenni. Tilkynnt hefur verið um þrjú þök sem sem eru að fjúka i heilu lagi af sveitabæjum og mikið fok er í þorpinu sjálfu. Allir björgunarsveitarmenn hafa verið kallaðir út.

Ofsanum fylgir mikið grjót og sandfok og hafa rúður brotnað um allt þorp. Búið er að loka skólum, sýsluskrifstofunni og fyrirtækjum. 

Þá er mikið öskufok á Kirkjubæjarklaustri og eru björgunarsveitir þar í viðbragðsstöðu. 
Bryndís Fanney Harðardóttir, í svæðisstjórn björgunarsveitanna segir að ástandið hafi verið mjög slæmt í tvo þrjá tíma. „Þetta nær alveg út að Sólheimabæjum, Pétursey þar sem eru þök að fjúka og í þorpinu í Vík þar sem rúður í húsum og bílum hafa brotnað.“ Hún segir að það sé lítið um lausamuni, þá sé fólk að mestu búið að taka inn eða festa niður.  Nokkuð sé um skemmdir á húsum, þakplötur séu að losna og þakkantar af húsum og bílskúrum.  Bryndís segir langt síðan veðrið hefur verið svona vont.  „Það er langt síðan það hefur verið svona slæmt að fara þurfi út um allan Mýrdal. Það er í áratugum talið.“
Rafmagn fór af Vík í morgun. „Rafmagnið er búið að vera ansi óstöðugt. Það fór strax í gærkvöldi og síðan hefur varla verið hægt að nota það í morgun. Rafmagnið hefur verið að koma og fara og er ekki á núna. Við náum því ekki netsambandi eða neinu,“ segir Bryndís.

Þráinn Ársælsson sendi fréttastofu RÚV myndskeiðið hér að ofan.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi