Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verslunin fagnar en neytendur andmæla

09.04.2019 - 13:56
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendasamtökin óttast að heimild til að leggja viðbótarburðargjöld á sendingar frá útlöndum geti leitt til þess að vöruverð hækki innanlands. Þau gagnrýna að stjórnvöld ætli að drífa í gegn lagabreytingu án þess að fyrir liggi nauðsynlegir útreikningar. Samtök verslunar og þjónustu fagna hins vegar frumvarpinu og segja mikilvægt að jafna stöðu milli íslenskrar netverslunar og erlendrar. Nú standi íslensk netverslun höllum fæti gegn erlendri netverslun með niðurgreiddum burðargjöldum.

Þetta kemur fram í umsögnum um lagafrumvarp Sigurður Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðherra. Hann leggur til að fyrirtæki sem sinna alþjónustu í póstflutningum hérlendis fái heimild til að leggja viðbótarburðargjöld á erlendar sendingar ef endastöðvargjöld sem erlendu póstfyrirtækin greiða þeim íslensku duga ekki fyrir kostnaði. Pósturinn tapaði 718 milljónum króna á þessum sendingum í fyrra, samkvæmt upplýsingum frá fyrirtækinu. 

Póst- og fjarskiptastofnun segir að tap Íslandspósts starfi einkum af óhagstæðum endastöðvasamningum. Í umsögn stofnunarinnar segir að viðbótarburðargjöld yrðu ekki almennt gjald heldur aðeins lagt á sendingar þar sem endastöðvagjöld duga ekki fyrir kostnaði Íslandspósts við dreifinguna. Því hamli alþjóðapóstsamningurinn því ekki að sett séu notendagjöld á viðtakendur erlendra póstsendinga.

Telja að verð geti hækkað

Samkvæmt frumvarpinu mega fyrirtækin setja gjaldskrá fyrir erlendu sendingarnar. Þau gjöld eru svo innheimt af viðtakendum ásamt aðflutningsgjöldum, svo sem virðisaukaskatti og úrvinnslugjaldi. Þessu vara Neytendasamtökin við og segja að „lítið sé því til fyrirstöðu að með sérstakri gjaldskrá vegna erlendra sendinga verði lagt meira á neytendur en sem nemur kostnaði við að veita þjónustuna“.

Neytendasamtökin segja aðrar leiðir færar til að stemma stigu við rekstrartapi af þessari þjónustu. Meðal annars að beita sér fyrir því að Alþjóðlega póstsambandið, UPU, endurskoði skilgreiningu aðildarríkja. Þar vísa samtökin til þess að UPU skilgreinir Kína sem þróunarríki sem feli í sér óhagstæða skiptingu póstburðargjalda fyrir póstþjónustufyrirtæki hérlendis. 

Þá andmæla Neytendasamtökin því sem segir í greinargerð með frumvarpinu um að breytingin geti bætt samkeppnisstöðu innlendra verslana. „Neytendasamtökin telja að framangreindar breytingar gætu skilað sér í hærra vöruverði til neytenda enda hljóta verslanir að vera meðvitaðar um það verð sem að neytendum býðst í gegnum erlendar netverslanir er selja sambærilegar vörur.“ Þau segja að hærri kostnaður neytenda við netverslun dragi úr samkeppni og gefi innlendum verslunum færi á að hækka vöruverð. Að auki vanti útreikninga til að styðja fullyrðingar um tap Póstsins.

Niðurgreiddar erlendar netverslanir

Samtök verslunar og þjónustu eru öllu jákvæðari í garð frumvarpsins og leggja til að það verði samþykkt. Þau segja að þróuð ríki niðurgreiði 70 til 80 prósent af kostnaði við póstsendingar frá þróunarríkjum vegna reglna UPU. Nú standi nokkur risavaxin kínversk netverslunarfyrirtæki undir afar háu hlutfalli póstsendinga en þrátt fyrir það teljist Kína enn til þróunarríkja. „Afleiðingin er sú að innlendir rekstrarleyfishafar og neytendur niðurgreiða stóran hluta kostnaðar af þeim póstsendingum sem hingað berast.“ Það sjáist til dæmis í því að oft sé ódýrara að senda vöru til Íslands frá útlöndum en milli húsa innanlands.

„Í ríkjandi ástandi standa íslensk verslunarfyrirtæki höllum fæti í samkeppni við sambærileg fyrirtæki í þróunarríkjum UPU. Undir slíkum kringumstæðum eru forsendur til þróunar innlendrar verslunar afar veikar,“ segja Samtök verslunar og þjónustu. Þau segja rétt að hafa í huga að hlutfall íslenskrar verslunar sé enn afar lágt í samanburði við nágrannaríkin. Afar mikilvægt sé að leita leiða til að breyta því.