Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verslunarmannahelgin gengið stóráfallalaust

06.08.2018 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Verslunarmannahelgin náði hápunkti sínum víða í gærkvöld. Nóttin fór víðast hvar vel fram, að sögn lögreglu. Einn var fluttur með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum í gær eftir líkamsárás í fyrrinótt. 35 fíkniefnamál hafi komið á borð lögreglunnar þar, sem er minna en síðustu ár. 

„Það gisti hér einn í fangageymslu sem telst nú ekki mikið á aðfaranótt mánudags á Þjóðhátíð. Síðan komu til okkar fjórar líkamsárásir ein var tilkynnt til okkar um kvöldmatarleytið í gær og var atvik sem hafði gerst nóttina áður. Sá aðili var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur vegna innvortisblæðinga,“ segir Jóhannes Ólafsson er yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum.

Það gustaði um gesti þjóðhátíðar í gær. Hátt í 400 tjaldbúar gistu í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum í nótt vegna veðursins. Nú streymir fólk úr eynni með flugi og þá fer Herjólfur 11 ferðir í Landeyjahöfn. Lögreglan vill ekki tjá sig um kynferðisbrotamál í Vestmannaeyjum. Ef þau komu upp verður sagt frá þeim þegar rannsóknarhagsmunir eru tryggðir og hagsmunir þolenda.

Ekki fengust upplýsingar frá Landspítalanum um fjölda tilkynninga um kynferðisofbeldi um helgina en vaktstjóri á neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á spítalanum sagði að ekki væri búið að vera óvenjulega mikið álag á deildinni.

Nokkuð var um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Þá hafa nokkrir verið teknir fyrir ölvunarakstur á Suðurlandi í morgun. Að öðru leyti fór nóttin mjög vel fram á Suðurlandi að sögn lögreglu. Engar tilkynningar hafa borist um kynferðisbrotamál. Yfirlögregluþjónn segir að töluverður fjöldi fólks hafi farið heim í gærkvöldi til að vera á undan veðrinu. Lögreglan vill brýna fyrir fólki að fylgjast með veðri og ana ekki út í neitt.

Lögreglan á Akureyri segir að síðastliðin nótt hafi ekki verið jafn annasöm og þær fyrri. Einn gisti í fangageymslu fyrir óspektir í miðbæ Akureyrar en að örðu leyti var tíðindalítið að sögn lögreglu. Engin kynferðisbrotamál hafa verið tilkynnt alla helgina. Eins og fyrir sunnan var töluverð traffík í gærkvöldi af ferðalöngum sem fóru snemma heim vegna veðurs. 

Einn gistir í klefa lögreglunnar á Ísafirði. Töluverð traffík er fyrir vestan en lögregla segir að umferðin gangi vel. Á Egilsstöðum eru ferðalangar farnir að tygja sig heim. Þar er talsverð umferð að sögn lögreglu.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV