Verslanir undirbúa innflutning á fersku kjöti

09.01.2020 - 12:52
I13 - 20001124 - LONATE POZZOLO, ITALY : Unidentified member of Italian NAS, the Office against the Adulteration of Foodstuffs, controls the carcasses at a slaughterhouse near northern Italian town of Varese on Friday, 24 November 2000 as Italian
Ítalskur eftirlitsmaður skoðar ítalskt nautakjöt Mynd: RÚV
Enginn hefur enn lagt inn pöntun á fersku kjöti frá útlöndum eftir að innflutningur var heimilaður um áramót. Framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda segir líklegast að nautakjöt í hæsta gæðaflokki verði flutt inn til landsins.

Innflutningur á fersku kjöti og eggjum frá ríkjum Evrópusambandsins var leyfður um áramótin. Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að nokkur fyrirtæki séu að skoða innflutning en hann viti ekki til þess að neitt hafi enn verið pantað til landsins. Fyrir því séu tvær ástæður. Í fyrsta lagi hafi leiðbeiningar frá Matvælastofnun um framkvæmd reglugerðanna ekki verið gefnar út fyrr en 20. desember sem hafi ekki gefið mikið svigrúm til undirbúnings og talsverð vinna að koma á nýju verklagi.

Í öðru lagi séu verslanir að fara yfir það með viðskiptavinum sínum og birgjum hvaða vörur henta best til innflutnings. Innflutningur á fersku kjöti sé þó framundan og líklegast þykir honum að nautakjöt í hæsta gæðaflokki verði flutt inn. Fersk matvara sé hins vegar viðkvæm og  skipuleggja þurfi flutninga og geymslu vel fyrst.

Sýni tekin á framleiðslustað

Með nýrri reglugerð á sú breyting sér stað að Matvælastofnun sinnir ekki lengur eftirliti með innflutningi heldur þurfa vottanir og skjöl innflytjenda að sýna fram á niðurstöður rannsókna vegna kamfýlóbakter og salmonellu. Þau sýni eru tekin og rannsökuð á framleiðslustað erlendis. Gagnrýnt hefur verið að Íslendingar reiði sig nú á evrópsk eftirlitskerfi.

„Við þekkjum eggjaskandalinn í Hollandi fyrir tiltölulega fáum árum, við þekkjum mýmörg dæmi um matarsvindl og það er hægt að skrifa þetta á eftirlitskerfi sem eru að bregðast og við erum núna að fara að reiða okkur á þessi eftirlitskerfi. Og það er það sem við höfum áhyggjur af, við bændur“ sagði Arnar Árnason formaður Landssambands kúabænda nýverið við fréttastofu. 

Óttast ekki sérstaka hættu á matarsýkingum

Ólafur segist ekki hafa áhyggjur af því að innflutningurinn feli í sér sérstaka hættu á matarsýkingum. Það sé áhætta sem sé aldrei hægt að útiloka. Kamfýlóbakter og salmonellu sýkingar komi af og til upp í innlendri framleiðslu. Evrópska kerfið geri það hins vegar að verkum að hægt sé að bregðast fljótt við í slíkum tilfellum, áður en varan kemst í hendur neytenda.

„Hvað varðar vottorð um að varan sé laus við kamfýlóbakter þá á það við um alifuglakjötið eingöngu þar sem mesta hættan er á slíku og mér finnst satt að segja ekki líklegt að það reyni á það á næstunni, ég veit ekki um neinn sem ætlar að flytja inn ferskt alifuglakjöt“ segir Ólafur.

Undirbúningur hafinn                   

Særún Ósk Pálmadóttir, samskiptastjóri Haga, segir engar ákvarðanir hafi verið teknar vegna innflutnings en Hagar væru að skoða nýju reglugerðina vel ásamt sínum birgjum. Skilyrði fyrir innflutningi væru mörg og margt sem þurfi að skoða áður en innflutningur geti byrjað. „En við fögnum því að geta þá þegar við byrjum boðið okkar viðskiptavinum upp á vörur sem hafa hingað til ekki verið í boði á Íslandi, til dæmis lífrænt ræktað kjöt“.

Spurð að því hvernig þau ætli að tryggja það að neytandinn sé upplýstur um uppruna vöru segir hún það líka verið í skoðun og málið sé flókið. Þau muni hins vegar gera allt sem þau geti til að neytandinn sé upplýstur um uppruna vöru og hvernig hún hafi komið til þeirra.