Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vermandi og vel útfært popp

Mynd: warmland / artist facebook

Vermandi og vel útfært popp

14.06.2019 - 16:05

Höfundar

Warmland er dúett þeirra Arnars Guðjónssonar og Hrafns Thoroddsen og er Unison Love þeirra fyrsta breiðskífa. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í verkið, sem er plata vikunnar á Rás 2.

Þegar tveir meistarar henda saman í verkefni verða tveir plúsar stundum að risastórum mínus. Í tilfelli þessarar sveitar er niðurstaðan hins vegar þveröfug. Arnar Guðjónsson og Hrafn Thoroddsen eru mikilsverðir hæfileikamenn er kemur að tónlist, náttúrubörn og fjölsnærðir með afbrigðum. Á Unison Love efla þeir hvor annan, draga fram blæbrigði sem hvorugur vissi líklega að hann hefði í sér. Gifturíkt samstarf, sannarlega, og við græðum.

Frábært

Já, Unison Love er giska vel heppnað verk, nei, frábært. Ég á hins vegar erfitt með að festa nákvæmlega fingur á það, af hverju ég nýt hennar svona mikið. Á yfirborðinu er þetta vel útfært rafpopp, og menn eru alls ekki að finna upp hjólið. Ætli það sé ekki þetta „x“ sem ég nefni að framan, þeir félagar virðast finna sig mjög fallega í samstarfinu og sá góði andi lekur óhjákvæmilega út í hljóðrásirnar. Sönnun fyrir þessu er meira að segja finna í útvarpi allra landsmanna, en Warmland-liðar kynntu plötuna til leiks eins og vera ber síðasta mánudag, í þættinum Plata vikunnar. Þar fóru þeir á kostum í gríni og gamanmálum, eitthvað sem maður átti ekki beint von á frá þessum mönnum en sýnir vel hversu heilnæmt þetta samstarf er greinilega.

En kíkjum á tónlistina. Warmland á sér rætur í spilamennsku sem Arnar og Hrafn ástunduðu með Banga Gang í Kína hér um árið. Ég heyri alveg þetta höfuga, rökkurbundna flæði sem Bang Gang hefur verið að framreiða á síðustu plötum. Ég heyri líka hvað Arnar á, Leaves-hljómar og kvikmyndalegir tónar, en Arnar gerði stórkostlega plötu, Grey Mist of Wuhan, fyrir þremur árum síðan. Falsetta Hrafns og Ensímalegir sprettir renna þá líka um. En þessi blanda knýr líka fram eitthvað nýtt. Áhrif frá Air, Vangelis og kuldalegri nýrómantík krydda þá enn frekar.

Arnar og Hrafn tala líka um blöndu af lífrænu og vélrænu (sem býr til „volga“ áferð sagði Hrafn í téðum þætti og hló hátt) en lögin eru um leið mismunandi innbyrðis; sum eru hæg og dramatísk, jafnvel drungaleg en svo eru hérna skammlausir slagarar eins og „Sweet and Sour“. Svokallað „fimm í fötu“ lag samkvæmt glettnum Hrafni, þar sem hann vísar í ógnarfjörið sem bundið er í lagið.

En svona er þetta. Það er leikur og fjör í allri framvindu, menn voru greinilega að njóta sín, en um leið eru þeir það miklir fag- og hæfileikamenn að útkoman hefði ávallt orðið eins og hún er. Pæld poppplata sem rennur áfram, algerlega fumlaust.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Reggí gott af Reykjanesi

Popptónlist

Leðurklætt rokk og ról

Popptónlist

Einlæg og vonbjört

Popptónlist

Makt myrkranna