Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Verktaki óttast ekki eftirmál vegna OR-hússins

26.08.2017 - 13:02
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Aðalverktakinn sem annaðist byggingu höfuðstöðva Orkuveitunnar á Bæjarhálsi óttast ekki möguleg eftirmál vegna rakaskemmda í byggingunni. Fyrirtækið beri ekki ábyrgð á stöðu hússins. Fimm þúsund og fimm hundruð fermetra vesturhús höfuðstöðva Orkuveitunnar er ónothæft og heilsuspillandi vegna raka og myglu.

Svo virðist sem að sérsmíðað útveggjakerfi byggingarinnar, sem er fimmtán ára gömul, haldi ekki vatni, en allar hæðir hússins, fyrir utan þrjár steinsteyptar hæðir í kjallara, voru tæmdar í maí vegna heilsubrests starfsmanna. Kostnaður Orkuveitunnar, síðan að bera fór á rakaskemmdum haustið 2015, nemur 460 milljónum króna, meðal annars vegna sérfræðiráðgjafar og tilraunaviðgerða.

Að mati tveggja verkfræðistofa svarar ekki kostnaði að gera við útveggi hússins, en þær leggja til að byggð verði sérstök regnkápa utan um bygginguna eftir að hún hefur verið lagfærð, sem er ódýrasta leiðin og hljóðar upp á rúmar sautján hundruð milljónir króna.

„Ákvarðanir sem við höfðum enga aðkomu að“

Húsið er í eigu nokkurra lífeyrissjóða, en samkvæmt tuttugu ára leigusamningi kostar Orkuveitan allt viðhald og endurbætur á leigutíma. Til stendur að dómkvaddur matsmaður meti tjónið, og meti hver beri ábyrgð á ástandi hússins varðandi mögulegan bótarétt. Þorvaldur Gissurarson, forstjóri ÞG Verks, sem var aðalverktaki við byggingu höfuðstöðva Orkuveitunnar, útilokar að fyrirtækið beri ábyrgð á stöðu hússins.

„Það er vegna þess að á sínum tíma tók Orkuveitan ákvörðun um innkaup og val á útveggjakerfi í húsinu og þá í samráði við og með sínum ráðgjöfum og hönnuðum. Það eru ákvarðanir sem við höfðum enga aðkomu að og berum þar af leiðandi enga ábyrgð á,“ segir Þorvaldur.

Orkuveitan skoðar nú hvort byggja eigi áðurnefnda regnkápu utan um vesturhús höfuðstöðvanna, en sömuleiðis kemur til greina að rífa húsið og byggja smærra hús á grunninum eða rífa húsið og flytja starfsemina í önnur hús fyrirtækisins á Bæjarhálsi.

Kostnaður við síðari tvo möguleikana nemur tveimur til þremur milljörðum króna. Forstjóri ÞG Verks, segir að fyrirtækið hafi ekki átt í neinum samskiptum við Orkuveituna varðandi byggingu höfuðstöðva fyrirtækisins eftir að verki lauk.

„Við skiluðum verkinu af okkur á sínum tíma og þar var úttekið og samþykkt eins og það var og í sjálfu sér höfum við ekkert heyrt af því síðan þá.“

Og ekki verið í neinum samskiptum við Orkuveituna síðan?
„Ekki vegna þessara mála.“

Ægir Þór Eysteinsson
Fréttastofa RÚV