Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verkföll hefjast á morgun

03.02.2020 - 11:24
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Efling
Fundur samninganefnda Eflingar og Reykjavíkurborgar hjá ríkissáttasemjara bar ekki árangur og því ljóst að rúmlega 1800 félagsmenn Eflingar sem starfa hjá borginni fara í verkfall á hádegi á morgun. Næsti fundur í kjaradeilunni er boðaður klukkan þrjú á miðvikudaginn. 

Verkfallsaðgerðirnar hefjast klukkan 12.30 á hádegi og standa til miðnættis. Þær raska leikskólastarfi og sorphirðu hjá borginni og skerða velferðarþjónustu. 

Starfsfólk Eflingar telur um 1850 manns sem starfa á 129 starfsstöðvum hjá borginni. Er þetta fyrsta vinnustöðvunin af sex sem boðað hefur verið til. 

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við fréttastofu að enginn árangur hafi verið á fundinum í morgun. „Það kom ekkert fram af hálfu borgarinnar sem að býr til neinn viðræðugrundvöll.“ 

Mest verða áhrifin á skóla- og frístundasviði þar sem um eitt þúsund manns starfa, mikill meirihluti á leikskólum. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg þarf að senda um helming leikskólabarna heim meðan á verkfalli stendur. Áhrifin eru misjöfn eftir leikskólum og er skóla- og frístundasvið nú að kortleggja hvar þau verða mest.

Boðaðar verkfallsaðgerðir Eflingar

- Þriðjudagur 4. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

- Fimmtudagur 6. febrúar 2020: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Þriðjudagur 11. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 12:30 og fram til klukkan 23:59.

- Miðvikudagur 12. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Fimmtudagur 13. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og fram til klukkan 23:59.

- Mánudagur 17. febrúar: Vinna lögð niður frá klukkan 00:01 og ótímabundið eftir það.