Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Verkfallsvopnið komið á loft

11.03.2015 - 16:42
Mynd: RÚV / RÚV
Það stefnir í verkföll strax eftir páska eða upp úr næstu mánaðamótum. Eftir að Starfsgreinasambandið sleit viðræðum við SA gær er hafin undirbúningur verkfalla. Félagsmenn mun á næstunni greiða atkvæði um hvort til verkfalla verður boðað.

Ekki hefur verið ákveðið hvernig verkföllum verður háttað. Meginkrafa Starfsgreinasambandins er krónutöluhækkanir, að lágmarkstaxtar hækki 300 þúsund innan þriggja ára en lægstu taxtar eru nú rétt rúmlega 200 þúsund. SA hefur metið kröfuna svo að um 50 prósenta hækkun sé að ræða sem muni flæða um alla launataxta. Verðbólgan muni knýja á dyr, kaupmáttur muni ekki aukast og verðtryggðlán muni hækka svo eitthvað sé nefnt. Ekki sé svigrúm fyrir meira en þriggja til fjögurra prósenta hækkanir.

Tæplega 200 kjarasamningar eru lausir um þessar mundir eða eru að losna. Samingaviðræður er mis langt á veg komnar. Iðnaðarmannafélögin fara fram saman með sína kröfugerð. Hún verður kynnt á föstudaginn en meðal krafna er að stytta vinnutímann og að dagvinnulaun dugi fyrir framfærslu. Því má búast við að verið sé að tala um umtalsverðar launahækkanir. Formaður BHM, Bandalag háskólamanna, segir að samningamenn hafi komið að lokuðum dyrum hjá ríkinu en samningar hafa verið lausir frá því um áramót. Í boði séu 3,5 prósent og ekkert meira. Undirbúniningur er hafinn að boðun verkfalla og munu félagsmenn greiða atkvæði um verkfallsboðun á næstu dögum. Miðað er við að boðuð verði tímabundin verkföll annað hvort starfstétta eða á tilteknum vinnustöðum.

Starfsgreinasambandið er að undirbúa verkföll. Björn Snæbjörnsson, formaður sambandsins, segir að viðræðum hafi verið sjálfhætt vegna þess að atvinnurekendur voru alls ekki tilbúnir að ræða þær tillögur sem sambandið lagði fram. Rætt er við Björn í Speglinum.

 

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV