Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Verkfallslotur lækna tvöfalt lengri

05.01.2015 - 12:52
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Verkföll lækna hófust á miðnætti. Nú eru hafnar tvöfalt lengri verkfallslotur á Landspítala en voru fyrir áramót. Fram á föstudag verða læknar meðal annars á bráðamóttöku, endurhæfingadeildum, öldrunardeildum, gjörgæslu, speglunum, svæfingum og blóðbanka í verkfalli. Öllum neyðartilfellum er sinnt.

Öll yfirstjórn spítalans það er framkvæmdastjórnin situr nú á fundi.  Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga, segir óhætt að segja að nú þegar verkfallstíminn er lengri og í samliggjandi vikur, hafi það enn meiri áhrif á spítalann en í fyrri aðgerðum. Fresta þurfi 160 aðgerðum í þessari viku og þetta hrannist upp.

Ólafur segir að ekki hafi komið upp slæm mál í morgun, sem hann viti af, en ljóst sé að fólk hafi orðið fyrir verulegri truflun af völdum verkfallsins. Haldi fram sem horfir verður starfsemi spítalans meira og minna óvirk að hluta fram í lok mars. Ólafur segir að bráðatilfellum verði sinnt en valkvæð starfsemi spítalans verði meira eða minna lömuð í langan tíma, þannig að það líti illa út.

 Ólafur segir að spítalinn sé nú þegar fullnýttur bæði hvað varðar legurými og skurðstofur. „Þannig að það verður mjög þröngur stakkur að glíma við.“ Líðan fólks á biðlistum breytist að sjálfsögðu og það sé áhyggjuefni. 

Verkfallið nær til lækna á aðgerðarsviði og flæðasviði Landspítalans niður störf, og læknar hjá Sjúkratryggingum, Tryggingastofnun, Greiningarstöð ríkisins, Vinnueftirlitinu, embætti Landlæknis, Lyfjastofnun, Heyrnar- og talmeinastöðinni og Þjónustumiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda.