Verkfallið í dag: Hefur áhrif á helming leikskólabarna

06.02.2020 - 06:56
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Sólarhringsverkfall Eflingar hófst á miðnætti eftir stuttan og árangurslausan sáttafund í gær. Verkfallið hefur áhrif á starfsemi leikskóla Reykjavíkurborgar, velferðarþjónustu og sorphreinsun. Í næstu viku er boðað verkfall í tvo og hálfan sólarhring. Ef ekki semst fyrir 17. febrúar hefst ótímabundið verkfall.

Gert er ráð fyrir að verkfallið hafi áhrif á um rúman helming leikskólabarna í borginni eða 3.500 börn. Þau börn sem fá vistun verður skipt upp í hópa, einn fyrir hádegi og annar eftir hádegi. Þá er fyrirséð að matarþjónusta í einhverjum grunnskólum borgarinnar raskast og því þurfa nemendur þar að koma með nesti í skólann.  

Velferðarsvið fékk undanþágur frá verkfallsaðgerðum fyrir starfsfólk Eflingar sem sinnir viðkvæmustu þjónustunni við umönnun fatlaðs fólks, barna, aldraðra á hjúkrunarheimilum og í heimahúsum, barna og fólks sem þarf á neyðarþjónustu að halda í gistiskýlum.

Hins vegar mun verkfallið hafa áhrif á um 1.650 notendur velferðarþjónustu. Þrif á heimilum fatlaðs fólks og aldraðra falla niður, sömuleiðis aðstoð við böðun. Ekki verður hægt að kaupa máltíðir á félagsmiðstöðvum og þá verður dagdvöl í Þorraseli lokuð á meðan verkfalli stendur.

 

Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi