Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verkfalli aflýst á morgun og hinn

27.03.2019 - 18:39
Mynd:  / 
Verkföllum Eflingar og VR sem áttu að hefjast á miðnætti í kvöld hefur verið aflýst. Um 2000 starfsmenn hótela og rútufyrirtækja munu því ekki leggja niður störf eins og áður hafði verið ráðgert.Fundað var stíft í deilunni frá klukkan tvö í dag og allt fram á sjöunda tímann í kvöld.

 „Aðgerðir okkar hafa skilað þeim árangri að það er loksins kominn viðræðugrundvöllur,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. Hann segir að fram hafi komið í máli Samtaka atvinnulífsins í dag að það er til staðar viðræðugrundvöllur sem áður var ekki að mati Eflingar. 

Viðar segist vera gríðarlega þakklátur félagsmönnum og starfsfólki sem hafi lagt nótt við dag og verið í eldlínunni að skipuleggja og framkvæma aðgerðir. En þótt ákveðið hafi verið að aflýsta verkfalli sem átti að hefjast á miðnætti standa þær verkfallsaðgerðir sem hafa verið boðaðar í framhaldinu.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur undir að það sé kominn grundvöllur til þess að reyna að ná kjarasamningi. „Hvort sem það tekst eða ekki að þá ætlum við að láta á það reyna næstu daga og um helgina,“ segir Ragnar. Hann segist ekki geta tjáð sig um innihald þess sem er á borðinu. En það liggur í hlutarins eðli að það er eitthvað á borðinu sem við erum að skoða,“ segir Ragnar.

Hann bendir jafnframt á að þótt verkfallinu hafi verið aflýst nú en aðgerðir haldi áfram í næstu viku ef ekki næst árangur. „Ég ætla hvorki að vera bjartsýnn eða neikvæður en ég vona bara að við klárum þetta,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson.

Sólveig Anna Jónsdóttir segist telja að verið sé að nálgast hlutina af ábyrgð. „Ég verð að fá að lýsa yfir þeirri afstöu minni að við værum ekki komin hingað nema af því að verkfallsvopnið er beitt vopn og það bítur,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, í kvöldfréttum sjónvarps.

Halldór Benjamin Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir það algjört lykilatriði að hendur verði látnar standa fram úr ermum næstu daga. Margt geti farið úrskeiðis enn. „En ég skynjaði hér í dag mjög einbettan vilja til að klára kjarasamninga. Ég fagna því að við séum komin á þann stað og Samtök atvinnulífsins munu ekki láta sitt eftir liggja til að svo geti orðið,“ sagði Halldór Benjamin Þorbergsson.

Fréttin hefur verið uppfærð.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Jón Hákon Halldórsson
Fréttastofa RÚV