Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Verkfall sjómanna gæti hafist 10. nóvember

09.09.2016 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Formaður Sjómannasambands Íslands segir tímasetningu á fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum sjómanna ekki verri en aðrar, þó að hvorki makríl- né loðnuvertíð standi yfir á þeim tíma. Ef verkfall verður samþykkt gæti það hafist tíunda nóvember, hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.

Það slitnaði upp úr kjaraviðræðum sjómanna og útgerðarinnar á miðvikudagskvöld, en þær viðræður fóru af stað eftir að sjómenn kolfelldu kjarasamning sem var gerður í sumar. Atkvæðagreiðsla hefst hjá félögunum í næstu viku en hvert og eitt félag greiðir atkvæði innan sinna raða um verkfallsboðun.

Að sögn Valmundar Valmundssonar er stefnt að því að atkvæðagreiðslunum ljúki sautjánda október. „Vinnustöðvun gæti skollið á í fyrsta lagi tíunda nóvember ef til þess kemur.“

Valmundur segir mikinn hug í sjómönnum. „Og miðað við það sem maður heyrir núna þá eru sjómenn bara tilbúnir, það er bara þannig.“

Valmundur bendir á að allur flotinn taki þátt í aðgerðunum að skipstjórnarmönnum frátöldum, en þeir samþykktu sinn samning í sumar. Félag vélstjóra og málmtæknimanna er með í þessum aðgerðum.

Borið hefur nokkuð á gagnrýni meðal sjómanna á tímasetningu aðgerðanna, meðal annars þar sem ekki er verið að veiða loðnu og makríl á þessum tíma. Valmundur segir að nú sé vertíð á Íslandi allt árið. „Þorskurinn er langverðmætastur af því sem við veiðum. Það er verið að veiða hann allt árið. Væntanlega verður síldarvertíð í gangi á þessum tíma. Ég hef heyrt þessar raddir líka, að við eigum að fara í aðgerðir þegar það er komin loðnuvertíð. En það er nú ekki einu sinni víst að hún verði þannig að það er ekki á vísan að róa í því.“

Valmundur segir aðgerðir hafa áhrif á öllum tímum, nema yfir jól og sjómannadag. Samstaða hafi verið um það í samninganefndinni að fara í aðgerðirnar sem fyrst. „Og það er kannski ekkert skrítið því að við erum búnir að vera samningslausir í sex ár bráðum. Það er bara komið nóg. Við verðum að þrýsta á að fá samning, þetta gengur ekki lengur.“

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV