Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verkfall hjá Strætó hefst klukkan 16

02.04.2019 - 13:28
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Birgir Þór Harðarson
Verkfall strætisvagnabílstjóra Almenningsvagna Kynnisferða hefst klukkan 16 og stendur til 18 í dag. Öllum öðrum verkföllum sem Efling og VR hafa boðað á næstu vikum hefur verið aflýst. Sagt var í hádegisfréttum að verkfallinu í dag hafi einnig verið aflýst og er það leiðrétt hér með.

Bílstjórar tíu leiða leggja niður störf í dag. Það eru bílstjórar á leiðum 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36.  

Forysta verkalýðsfélaga og atvinnurekenda kom til fundar hjá ríkissáttasemjara í morgun og vinnur að því að fullgera samkomulag um kjarasamning sem náðist í nótt, sem er háð aðkomu stjórnvalda. Bryndís Hlöðversdóttir, ríkissáttasemjari, segir að í dag skýrist hvort að af kjarasamningi verður. Hún var ánægð með samkomulagið sem gert var í nótt og að bæði Starfsgreinasambandið og verslunarmenn komi að samkomulaginu sem hún sagði vera áfanga þrátt fyrir að kjarasamningar séu ekki í höfn. 

„Ef þetta endar í kjarasamningi, sem ég sannarlega vona, þá er þetta ný nálgun og mjög áhugaverð. Það á eftir að fullgera yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem er forsenda þess að kjarasamningar geti orðið,“ segir Bryndís.

Ríkissáttasemjari vill ekki spá um það hvort samningar náist í dag. „Það er verið að vinna að ýmiss konar textavinnu og uppfylla þær forsendur sem að samkomulagið er háð. Þær eru ekki allar komnar í hús. Ég myndi segja að það myndi nú skýrast að öllum líkindum í dag hvernig þetta fer allt saman.“