Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verkamannaflokkurinn í vanda

27.04.2018 - 22:43
Jeremy Corbyn, leiðtogi breska Verkamannaflokksins. - Mynd: EPA / EPA
Breski Verkamannaflokkurinn sætir nú miklu ámæli fyrir að bregðast seint og illa við and-semitískri umræðu og gyðingahatri meðal hluta flokksmanna og tekið á gyðingaandúð innan flokksins. Jeremy Corbyn, leiðtogi flokksins, reyndi að friðmælast við helstu forystumenn gyðinga en fundur þeirra var árangurslaus.

Umdeildur flokksmaður rekinn

Miðstjórn breska Verkamannaflokksins hefur rekið umdeildan félaga úr flokknum. Mark Wadsworth var sakaður um að hafa svert ímynd flokksins vegna viðbragða við skýrslu um gyðingaandúð innan flokksins.

Wardsworth er í hópi þeirra. Hann og skoðanasystkin hans segja ekkert hæft á ásökunum um gyðingahatur og að öll gagnrýni á Jeremy Corbyn vegna málsins sé runnin undan rifjum hægriarms Verkamannaflokksins.  Tilgangurinn sé að grafa undan Corbyn og koma honum frá.

Veittist að þingmanni

Wardsworth veittist meðal annars að Ruth Smeeth, þingmanni Verkamannaflokksins, sem er gyðingur. Þegar hún kom til að bera vitni er mál Wardsworths voru til athugunar hjá flokksforystunni fyrr í vikunni slógu 40 aðrir þingmenn Verkamannaflokksins skjaldborg um Smeeth því stuðningsmenn Wardsworths voru hávaðasamir utan við fundarstaðinn.

Árangurslaus fundur með leiðtogum gyðinga

Corbyn átti fyrr í vikunni fund með helstu leiðtogum gyðinga. Þeir sögðu fundinn ekki hafa verið til neins. Einn þeirra, Jonathan Arkush, var spurður í viðtali á BBC hvort hann gæti hugsað sér að kjósa Verkamannaflokkinn.
Nei, sagði Arkush og kvaðst telja nánast alla gyðinga vera sömu skoðunar, þó að margir þeirra hefðu verið lengi í Verkamannaflokknum. Málið hefur dregið athygli frá ærnum vandræðum Íhaldsflokksins og skaðað Verkamannaflokkinn mikið.

Fáheyrt lófatak í þinginu

Ruth Smeeth sagði í neðri málstofu þingsins, þegar gyðingahatur var til umræðu, að gyðingar ætluðu ekki að láta kúga sig út úr stjórnmálaþátttöku. Baráttunni yrði haldið áfram uns þjóðfélagið yrði laust við illa meinsemd gyðingahaturs. Þingmenn úr öllum flokkum risu á fætur og klöppuðu fyrir Smeeth, sem er fáheyrður atburður í neðri málstofunni.

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV