Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Verið rótleysi í kringum suma Pírata

28.08.2015 - 07:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, segir að sér finnist Píratar að stærstum hluta óskrifað blað. Honum finnst hafa verið mikið rótleysi í kringum suma í þessum flokki og nefnir Birgittu Jónsdóttur, kaptein Pírata, sem dæmi um slíkt.

Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í helgarblaði DV. Hann nefnir sem dæmi að Birgitta hafi fyrst sést á þingi sem starfsmaður fyrir VG - svo hafi hún farið í framboð fyrir Borgarahreyfinguna og þannig komist á þing. „[E]n sá flokkur lifði ekki lengi og þá fór hún að starfa með Hreyfingunni. Svo bauð hún sig síðasta fram fyrir Pírata.“

Bjarni segir að til þess að stýra landinu af einhverri stjórnfestu þurfi „auðvitað einhverja kjölfestu.“ Stóra spurningin sem menn standi frammi fyrir með nýja flokka eins og Pírata sé fyrir hvað þeir standi.„Er einhver kjölfesta í þeim? Mér finnst Píratar að stærstum hluta óskrifað blað.“

Bjarni kveðst hafa orðið hissa þegar hann hafi séð skoðanakannanir síðustu vikna og mánuði þar sem fylgi Pírata mældist um og yfir þrjátíu prósent. „Ég neita því ekki og ég held að margir séu að hissa. Þau hafa stokkið upp í fylgi á mjög skömmum tíma án þess að þau sé að kynna einhver stefnumál til sögunnar.“ Píratar kynntu nýverið stefnu sína í sjávarútvegsmálum þar sem meðal annars er kveðið á um að allur afli skuli fara á markað.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, talaði á svipuðum nótum í helgarblaði DV fyrir tveimur mánuðum. Þar sagði formaður Framsóknarflokksins að ef Píratar fengju 30 til 40 prósenta fylgi myndi taka við allt annars konar stefna í samfélaginu þar sem erfitt gæti verið að viðhalda þeim gildum „sem við höfum verið að sækjast eftir og byggja upp um áratuga skeið.“

Bjarni er enn fremur  spurður að því hvort hann gæti hugsað sér að mynda stjórn með Pírötum - hann kveðst ekki geta sett sig í það sæti að dæma aðra úr leik sem hafi sterkt lýðræðislegt umboð.

Bjarni er í viðtalinu spurður út í stöðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins. Hann segist líta á það þannig að Hanna Birna þurfi að fá endurnýjað umboð frá landsfundi flokksins sem haldin verður eftir tvo mánuði. „Hún hefur gefið það út að hún hafi áhuga á að halda áfram. Ég treysti mér vel til þess að vinna með henni áfram,“ segir Bjarni.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV