Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verið að vinna að áætlun um vernd Leiðarenda

30.05.2019 - 19:47
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs Hafnarfjarðarbæjar, Helga Ingólfsdóttir, segir að málið hafi dregist þar sem ekki hafi verið á hreinu hvort Leiðarendi tilheyri Hafnarfjarðarbæ eða Kópavogi. Nú sé verið að vinna áætlun um vernd hellisins. „Við höfum ekki ein yfirráð yfir hellinum og við þurftum að fá úr því skorið hvaða heimildir við höfum og það er núna komið á hreint," segir hún.

Sjá einnig: Brotið, krotað og kúkað í náttúruperlu

Afhverju var ekki farið í neinar aðgerðir fyrir en fyrir tveimur árum?

„Ég er nú ekki í eðli mínu hellaáhugakona og vissi ekki sjálf af þessum helli og ég held að margir Íslendingar almennt viti ekki af því að við eigum ótal hella í landi Hafnarfjarðar og víðar," segir hún. „Það má alltaf spyrja sig afhverju eitthvað var ekki gert fyrr en við erum í það minnsta að vinna að því nuna að fara í aðgerðir."

Og hvað stendur til að gera við hellinn?

„Við byrjum inni í hellinum að reyna laga það sem hefur verið skemmt, því miður ganga margir ekki vel um, þó það séu alls ekki allir," segir hún. Setja þurfi einhverskonar lýsingu og annað sem eykur upplifun gesta. „Það skiptir máli fyrir okkur." Þá eigi að laga hellismunnann og leggja stíga, ásamt því að telja gesti hellisins. „Teljari gefur okkur vísbendingu um það hvaða næstu skref þarf að stíga," segir Helga.

 

 

evabb's picture
Eva Björk Benediktsdóttir
íþróttafréttamaður