Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Verður dýrara að keyra bensínbíla

12.09.2018 - 18:42
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Það verður rúmlega átta þúsund krónum dýrara að reka meðalfjölskyldubíl á ári, verði hækkanir í fjárlagafrumvarpinu að veruleika. Þetta er mat Félags íslenskra bifreiðeigenda. Eldsneytishækkanir í frumvarpinu bætist ofan á bensínverðið sem sé það hæsta í Evrópu.

Fjármálafrumvarp 2019 er þykkt og mikið í sniðum, einar fjögur og fimmtíu blaðsíður. Þar eru lagðar til ýmiss konar hækkanir á bíla og eldsneyti.

„Þannig að þetta kemur til með að koma niður á veski almennra bíleigendafjölskyldna,“ segir Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda.

Þannig ætlar ríkisstjórnin að auka tekjur ríkisins með hækkun vörugjalda af ökutækjum og bensínsi, hækkun á kolefnisgjaldi, olíugjaldi, kílómetragjaldi og bireiðagjaldi. Alls nemur hækkunin tæplega tveimur komma sex milljörðum króna.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Þessi kostnaður leggst svo á heimilin í landinu. „Ég tel að menn séu að fara of bratt í að hækka gjöld á almenning,“ segir Runólfur.

Í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að hækkun á eldsneytissköttum leiði til þess að verðið á bensínlítranum hækki um 3,3 krónur og það valdi 0,05% hækkun á vísitölu neysluverðs. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Runólfur hefur reiknað út að kostnaður við bensín á meðalfjölskyldubíl aukist vegna hækkunar vörugjalda á bensínum um tvö þúsund eitt hundrað og tuttugu krónur á ári, vegna hækkunar bensíngjalds um þrjú þúsund fjögur hundruð og átján krónur á ári og vegna hækkunar kolefnisgjalds um tvö þúsund fimm fimmtíu og átta krónur á ári. Samtals eykst kostnaðurinn um tæplega átta þúsund og eitt hundrað krónur.  

„Það munar um minna og þetta hefur líka áhrif á vísitölu. Síðan er eitthvað sem við vitum ekki hvernig eigi eftir að þróast samanber þróun gengis núna og hugsanlega hækkun áfram á heimsmarkaði á eldsneyti. Eldsneytisverð á Íslandi er hreinlega það hæsta í Evrópu þannig að þetta bætist ofan á það,“ segir Runólfur.

 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV

Tengdar fréttir