Verður aftur varaforseti Suður-Súdans

08.07.2018 - 08:10
epa06872968 With Ugandan President Yoweri Museveni (C) between them, the President of South Sudan Salva Kiir (R) and the rebel leader Riek Machar (L) shake hands after their meeting in Kampala, Uganda, 07 July 2018. Reports say the warring parties agreed
Riek Machar og Salva Kiir takast í hendur. Yoweri Museveni, forseti Úganda, stendur á milli þeirra. Mynd: EPA-EFE - EPA
Riek Machar, leiðtogi uppreisnarmanna í Suður-Súdan, verður aftur settur í embætti varaforseta. Utanríkisráðherra Súdans greinir frá þessu, og segir stríðandi fylkingar hafa komist að samkomulagi um þetta í gær. 

Machar var varaforseti Salva Kiirs forseta áður en upp úr sauð á milli þeirra 2013. Í viðræðum fylkinga þeirra sem haldnar voru í Kampala, höfuðborg Úganda, í gær, var samþykkt að Machar verði einn fjögurra varaforseta. Tveir gegna því embætti nú þegar, Machar verður fremstur í röðinni og kona úr röðum stjórnarandstæðinga verður fjórði varaforsetinn, að sögn Al Jazeera.
Al-Dierdiry Ahmed, utanríkisráðherra Súdans, segir stjórnvöld nágrannaríkisins Suður-Súdans hafa samþykkt þetta og hreyfing Machars samþykki meginatriði sáttmálans. Viðræður leiðtoganna halda áfram í dag í höfuðborg Súdans, Khartoum. 

Svipað samkomulag náðist árið 2015, þar sem Machar tók aftur sæti varaforseta. Ári síðar fór hins vegar allt aftur í bál og brand, og neyddist Machar til að flýja land. Örfáir dagar eru síðan þeir Kiir og Machar samþykktu ótímabundið vopnahlé, og vonast almennir borgarar í þessu yngsta ríki veraldar til þess að átökum linni loks. 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi