Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Verður að vera hafið yfir allan vafa

16.03.2016 - 19:59
Mynd með færslu
Eiginkona forsætisráðherra upplýsti á Facebook að hún ætti félag í Bretlandi sem notað væri til að halda utan um arf hennar. Mynd: RÚV
Jón Ólafsson, prófessor við Háskóla Íslands, segir að almennt sé óeðlilegt að fólk sem gegni æðstu embættum landsins þyki ekki eðlilegt að eignastaða og hagsmunatengsl séu uppi á borðinu. Slíkir hlutir þurfi að vera hafnir yfir allan vafa. Ekki sé gott að aðeins hluti þingmanna hafi fylgt út viðeigandi skráningarblað á vef Alþingis um hagsmunatengsl.

Jón var gestur í Kastljósi ásamt Huldu Þórisdóttur, lektor í stjórnmálafræði við HÍ. Þau ræddu fréttir dagsins um að eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar ætti félag á Bresku-Jómfrúareyjum sem hefði lýst kröfum í föllnu bankana upp á hálfan milljarð króna.

„Sú spurning hvort þarna sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni er ekki aðalatriðið í mínum huga. Þetta lítur ekki vel út og það lítur aldrei vel út ef fólk er skeytingarlaust um að láta vita af hagsmunatengslum af ýmsum tagi sem að geta augljóslega haft áhrif á störf þess og stöðu. Alveg sama hvort þetta hefur þau áhrif eða ekki,“ sagði Jón en hann stýrði í tíð síðustu ríkisstjórnar samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslu.

Hulda Þórisdóttir sagði að trúnaðarbrestur hafi orðið á milli almennings og stjórnmálanna í hruninu. Langan tíma taki að byggja traust því sé gagnsæi sérstaklega mikilvægt.

Mynd með færslu
 Mynd: Kastljós - RÚV
Jón Ólafsson. Prófessor við Háskóla Íslands.