Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Verður að hlusta á gagnrýni sveitarstjórnarfólks

19.01.2020 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Ríkisstjórnin verður að hlusta á gagnrýni sveitarstjórnarfólks vegna Hálendisþjóðgarðs, segir Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Frumvarp verður lagt fram á vorþingi og óvíst er hvort það eigi eftir að njóta stuðnings stjórnarflokkanna. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, efast um að það verði samþykkt í vor.

Þjóðgarður á hálendi Íslands næði yfir um þriðjung landsins og yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra segist hafa fengið góð viðbrögð við honum á kynningaferð um landið og flestir séu hlynntir þjóðgarði en sitt sýnist hverjum um útfærsluna. Töluverð andstaða var við Hálendisþjóðgarð á fundi í Aratungu og á Hvolsvelli í vikunni. Sveitarstjórnarfólk þar og víðar óttast að missa skipulagsvald yfir landi til ríkisins og sumir vilja að þjóðgarðurinn fari í umhverfismat. 

Sigurður Ingi segir að ríkisstjórnin verði að taka tillit til þessara athugasemda. „Sem stjórnmálamaður úr dreifbýlu kjördæmi þar sem miðhálendið er mjög ríkt hjartans mál mjög margra íbúa á Suðurlandi þá heyri ég raddirnar þar sem segja, við sjáum ekki að það verði neitt betra með þessu og á þessar raddir verður ríkisstjórnin að sjálfsögðu að hlusta,“ segir Sigurður Ingi. 

Sigurður Ingi segir að samráðið hafi verið gott en hann hafi sett ýmis skilyrði áður en samþykkt var að Hálendisþjóðgarður færi í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Hann vill ekki svara því hvort hann styðji þjóðgarð á hálendinu því frumvarp, sem leggja á fram í vor, sé ekki enn komið fram og geti tekið breytingum eftir athugasemdir sveitarstjórnarfólks. „Áhyggjur þeirra fara vaxandi en ekki minnkandi þannig að einhvers staðar hefur okkur mistekist í að ná samtalinu við fólkið í landinu um þetta en ég held að markmiðið um að verja og vernda miðhálendið sé mjög ríkt í okkur mörgum og við séum öll sammála um það, svo er bara spurningin um leiðirnar.“

Málið gæti reynst ríkisstjórninni erfitt en þjóðgarður er eitt af áherslumálum Vinstri grænna í stjórnarsáttmálanum. Andstaða við hálendisþjóðgarð virðist hafa aukist upp á síðkastið en það breytist líklega ýmislegt í meðförum þingsins. Á þessu stigi eru hvorki Sigurður Ingi né Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks, tilbúnir til að svara því beint hvort þeir vilji þjóðgarð á hálendinu. „Ég styð rétta útfærslu á þjóðgarði á hálendinu, útfærslu sem er sátt um, sátt meðal þeirra sem eru að nýta hálendið nú í dag og hafa gert um aldir og svo sveitarfélögin sem búa í nágrenni við þjóðgarðinn og fara með skipulagsvaldið,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur tók þátt í starfi þverpólitískrar nefndar sem skilaði skýrslu fyrir áramót. Allir skrifuðu undir skýrsluna nema Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins. Vilhjálmur telur ólíklegt að frumvarpið verði afgreitt á vorþingi en það er í samráðsgátt og fresti til að skila inn umsögnum lýkur á morgun. „Ég held að það sem að fólk er kannski meira uggandi yfir og ég get tekið undir er hraðinn á málinu, hversu hratt þetta á að ganga í gegn. En við þurfum að byrja samtalið, við þurfum að byrja samráðið og ég tel að það hafi farið vel af stað en hvort það sé hægt að klára þetta á þessum tímapunkti, það þarf að koma í ljós um hvernig samtalið þróast næstu vikur og mánuði,“ segir Vilhjálmur.