Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Verðstýring afarkostur dugi aðgerðir ekki

01.12.2015 - 19:01
Mynd: Anton Brink RÚV / RÚV Anton Brink
Staðan á olíumarkaði er sérstök. Olíufyrirtækin fjögur kaupa olíu af sama birginum, norska olíufélaginu Statoil. Þögul samhæfing fyrirtækjanna hindrar heilbrigða samkeppni. Þessi samhæfing og álagningin sem fylgir henni kostaði heimilin í landinu 4,5 milljarða í fyrra. Þetta kemur fram í frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn sem tók til áranna 2005-2012. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir olíufélögin ekki sjá sér hag í að keppa hvert við annað.

Hlýða má á viðtalið við Pál í spilaranum hér að ofan. Skýrslan er aðgengileg hér

Páll Gunnar segist vona að aðgerðir Samkeppniseftirlitsins dugi til. Afarkosturinn sé að taka aftur upp verðstýringu. Það sé neyðarúrræði þar sem hún væri, við venjuleg samkeppnisskilyrði, til þess fallin að valda meiri skaða en ábata. Hann segir alla hafa hag af því að hætta hinni þöglu samhæfingu, olíufélögin líka. Þau færu þá að huga að því að hagræða í eigin rekstri í stað þess að einblína á hvað keppinautar þeirra séu að gera. Hér á eftir fer samantekt yfir nokkur atriði í frummatsskýrslunni. 

Fimm fyrirtæki ráðandi

Skipta má íslenska eldsneytismarkaðnum upp í þrennt; innflutning og heildsölu, birgðahald og dreifingu og loks smásölu. Fimm fyrirtæki eru ráðandi á markaði; Atlantsolía, Skeljungur, N1, Olís og Olíudreifing (sem er í eigu N1 og Olís).

Íslenskir neytendur tapa

 • Samhæfingin leiðir samkvæmt skýrslunni til þess að eldsneytisstöðvum fjölgar og verð hækkar. Hún hefur áhrif á kostnað annarra fyrirtækja og þar með á verðlag á annarri vöru og þjónustu og vísitölu neysluverðs. 
 • Talið er að álagning hafi verið 18 krónum of mikil á hvern bensínlítra og að í fyrra hafi neytendur greitt 4 - 4,5 millarða umfram það sem þeir hefðu greitt hefði samhæfingin ekki verið til staðar.  

Frá samráði, til samkeppni og loks samhæfingar

Á árunum 1991-1992 var komið á frelsi í olíuviðskiptum hér á landi, ríkið hætti afskiptum af verðlagningu og virk samkeppni átti að tryggja hag neytenda. Frá 1993 til 2001 höfðu fyrirtækin víðtækt, ólöglegt samráð sem bitnaði illa á þjóðinni og fyrirtækjum í landinu. Samráðið var upprætt og nokkru seinna, árið 2003, kom Atlantsolía inn á markaðinn. Samkeppni náði næstu ár nýjum hæðum. Frummat Samkeppniseftirlitsins bendir þó til þess að Adam hafi ekki verið lengi í paradís, að síðustu ár hafi á ný dregið úr samkeppni í sölu á bifreiðaeldsneyti.

Annað er þó uppi á teningnum þegar kemur að eldsneytissölu til fyrirtækja. Svo virðist sem heilbrigð samkeppni þrífist þar og samhæfing sé minni. Álagning á svartolíu hefur til að mynda lækkað um 41% frá samráðstímanum. Ástæðan er sú að gagnsæi er minna þegar kemur að sölu til fyrirtækja, meiri leynd hvílir yfir viðskiptunum og þeim tilboðum sem bjóðast. Þá er kaupendastyrkur fyrirtækja, geta þeirra til að þrýsta niður verði, meiri en almennra neytenda.

Þegjandi samhæfing

„Í henni felst að keppinautar taki gagnkvæmt tillit til hvers annars og til dæmis fylgist að í verðbreytingum. Samhæfingin er þegjandi í þeim skilningi að gagnsæi á markaðnum gerir keppinautum kleift að fylgjast að án þess að eiga í beinum eða óbeinum samskiptum sín á milli. Samhæfing sem verður til án beinna eða óbeinna samskipta keppinauta er skaðleg en ekki ólögmæt. Ef bein eða óbein samskipti eiga sér hins vegar stað er um ólögmætt samráð að ræða.“ 

Samkeppniseftirlitið getur samkvæmt 16. grein samkeppnislaga gripið til aðgerða gegn „aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni, almenningi til tjóns. Aðgerðirnar geta falið í sér hverjar þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að efla samkeppni og bregðast við athöfnum opinberra aðila sem hindra hana. Heimild til íhlutunar er til staðar þrátt fyrir að fyrirtæki hafi ekki brotið lög. Páll reifar þetta í viðtalinu. 

Hvers vegna samhæfing?

 • Gagnsæi er mikið og auðvelt að fylgjast með verðbreytingum keppinauta í rauntíma. Fyrirtækin eiga auðvelt með að reikna út álagningu á innkaupaverð þar sem þau kaupa öll af sömu birgjum, Statoil og OW Bunker A/S.
 • Samhæfing þjónar hagsmunum fyrirtækjanna.
 • Lækkun innkaupaverðs skilar sér síður út í verð en verðhækkun. 
 • Það eru verðleiðtogar á markaði. Olís, Skeljungur og N1 leiða hækkanir, samkvæmt skýrslunni og N1 leiðir lækkanir. 
 • Sveiflur í markaðshlutdeild og álagningu eru litlar. 
 • Árið 2010 ákváðu olíufélögin að bjóða sama verð óháð því hvar á landinu væri selt. Fram kemur í frummatsskýrslu Samkeppniseftirlitsins að við þetta hafi óvissa olíufélaganna um hegðun hvers annars minnkað, þetta hafi því auðveldað samhæfða hegðun.
 • Eignatengsl og sameiginlegt eignarhald kann að draga úr hvatanum til að keppa. 

Hvers vegna álagning?

 • Könnun samkeppniseftirlitsins bendir til þess að það sé arðbært fyrir olíufélögin að hækka verð á bifreiðaeldsneyti um 5-10% þegar næsta bensínstöð er í 6-11 mínútna akstursfjarlægð. Ef það tekur lengri tíma en 6-11 mínútur að aka á milli þéttbýlisstaða má því ætla að þeir veiti hvor öðrum ekki samkeppnislegt aðhald.
 • Verðlækkun eins fyrirtækis leiðir ekki endilega til aukinnar markaðshlutdeildar því hin fyrirtækin geta svarað um hæl. Afleiðingin yrði einfaldlega lægri heildarálagning fyrir alla.
 • Ytri þættir hafa lítil áhrif. Það eru miklar aðgangs- og vaxtarhindranir á markaðnum, mikill stofnkostnaður og mögulegt að olíufélögin geti vegna lóðréttar samþættingar neitað hugsanlegum keppinautum um aðgang að eldsneyti í heildsölu eða birgðatönkum. Í ljósi þessa ógna nýir keppinautar félögunum ekki.

 • Eldsneytisstöðvum fer fjölgandi en í nágrannalöndum er þróunin þveröfug. Samkvæmt skýrslunni er gegnumstreymi dælna hér á landi tiltölulega lítið. 

  Ef árleg sala stöðvar er aðeins 500 þúsund lítrar, eins og algengt er á landsbyggðinni, þyrfti álagningin (að viðbættum styrk frá Flutningsjöfnunarsjóð olíuvara) að vera 28 krónur til þess að félögin hefðu hag af því að opna þar eldsneytisstöð.

Hvers vegna aðgangshindranir?

 • Lóðrétt samþætting fyrirtækjanna, það er aðild þeirra að innflutningi, geymslu, dreifingu og smásölu á eldsneyti, veldur því að það er óarðbært fyrir þau að selja eldsneyti í heildsölu til fyrirtækis sem hyggst keppa við það í smásölu, geymslu og dreifingu. 
 • Fram kemur að fyrirtækin hafi öll hvata og getu til að útiloka aðgang nýrra aðila sem hafa í hyggju að keppa við þau. 
 •  skýrslunni segir að eignarhald Skeljungs og Olíudreifingar á birgðarýmum hafi á tilteknum stöðum gert keppinautum erfitt fyrir að keppa á viðkomandi mörkuðum. Olíudreifing ehf, fyrirtæki í eigu N1 og Olís. átti þegar skýrslan var gerð 25 birgðastöðvar en Skeljungur átti sjö. Önnur fyrirtæki sem eiga birgðastöðvar eiga eina hvert. 

Stjórnvöld beðin um að líta í eigin barm

 • Því er haldið fram að skipulagsstefna t.d. hjá Reykjavíkurborg taki ekki nægilegt tillit til samkeppnissjónarmiða. Sama gildi um útboð á vegum ríkis og sveitarfélaga. 
 • Mælst er til þess að löggjafinn endurskoði umgjörð um eða tilvist Flutningsjöfnunarsjóðs. Sjóðurinn veiti keppinautum á eldsneytismarkaðnum aðgang að lykilupplýsingum, svo sem um markaðshlutdeild. Þetta auki gagnsæi og vinni gegn sjálfstæði keppinauta á markaði. Lagaumhverfið geri ráð fyrir að fulltrúar olíufyrirtækjanna geti setið saman í stjórn, hist reglulega og rætt mál sem varði starfsemi þeirra á markaði með beinum hætti. Slíkt sé áhættusamt. 

Vanvirk samkeppni

Samkvæmt skýrslunni eru um 68% neytenda tilbúnir til þess að aka í fjórar mínútur til þess að fá bensín á 10% lægra verði. Það ætti að hafa áhrif á verðákvarðanir. Fram kemur að samkeppnin milli olíufyrirtækjanna sé einfaldlega vanvirk. Þættir sem ættu að hafa áhrif; fjöldi keppinauta, mismikil stærðarhagkvæmni, mismikill kostnaður vegna dreifingar og birgðahalds gera það ekki í sölu bifreiðaeldsneytis til einstaklinga. Þannig var Orkan, sem er í eigu Skeljungs, með lægsta eldsneytisverðið þegar rannsóknin var gerð. Hagræði N1 og Olís af því að að flytja eldsneyti sameiginlega um landið í gegnum fyrirtækið Olíudreifingu hafi því ekki skilað sér til neytenda. Í skýrslunni segir: „Á engan hátt er því augljóst að neytendur og aðrir viðskiptavinir hafi notið ábata af því samstarfi N1 og Olís sem felst í tilvist Olíudreifingar. Ber að árétta að í stofnun Olíudreifingar fólst eðli málsins samkvæmt að tvö af stærstu olíufélögum landsins hættu að keppa í mikilvægum hluta starfsemi sinnar.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV