Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Verða að sýna fyrirhyggju

07.04.2013 - 13:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Íslensk stjórnvöld verða að sýna fyrirhyggju og framsýni til að tryggja að almenningur hagnist á olíuvinnslu í framtíðinni. Þetta segir Harald Birkevold, norskur rannsóknarblaðamaður sem hefur rannsakað norskan orkuiðnað.

Hann segir að almennir borgarar hafi sjaldnast grætt þegar ríki finna olíu og hefja vinnslu á henni. 

Birkevold hefur skrifað um orkumál og viðskipti í norsk dagblöð 15 ár. Hann var gestur á ráðstefnu sem Miðstöð um rannsóknarblaðamennsku hélt um helgina og ræddi um olíu- og gasiðnaðinn í Noregi.

Harald segir að finni Íslendingar olíu og hefji olíuvinnslu, þá muni það eðlilega hafa mikil áhrif á íslenskt efnahagslíf, ekki síst þegar smæð Íslands og þau gríðarlegu verðmæti sem felist í stórum olíufundi séu höfð í huga. Hann segir að það sé alltaf hætta á spillingu þegar miklir peningar komi hratt inn í hagkerfið.

Hann bendir á að almenningur hafi sjaldan hagnast mikið þegar ríki finni og hefji olíuvinnslu. Það megi þó fyrst og fremst rekja til þess að flest olíuríkjanna séu ekki lýðræðisríki. Það séu Noregur og Ísland hins vegar. Það sé því afar mikilvægt að stjórnvöld sýni fyrirhyggju og tryggi fyrirfram að hagnaði af olíuvinnslu verði miðlað, dreift og ráðstafað í samræmi við lög, vilja og óskir Alþingis og þjóðarinnar.