Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Verða að gefa eftir gagnvart fleiri flokkum

03.11.2017 - 12:56
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Flokkarnir fjórir sem nú taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum verða ekki aðeins að vera reiðubúnir að gefa eftir í samstarfi innbyrðis heldur líka í samvinnu við aðra flokka á þingi. Þannig megi leitast við að skapa breiðari samstöðu um mál. Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, við upphaf formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.

Fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingarinnar, Pírata og Framsóknarflokks hófu í morgun formlegar stjórnarmyndunarviðræðna í Syðra-Langholti í Hrunamannahreppi, á heimili Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins.

Alls sitja tólf fundinn, þrír frá hverjum flokki. Þeim hefur verið skipt í tvo hópa. Katrín segir að annar hópurinn fari yfir þau stóru mál sem verði að vinna framundan og hinn fari yfir þau mál þar sem flokkarnir séu síður sammála. 

„Við erum ennþá að fara yfir málin. Ég ímynda mér að við notum daginn í dag og daginn á morgun í það og metum svo stöðuna, hvert við tökum þetta þaðan í frá,“ segir Katrín. Hún segir sem fyrr að allir flokkar þurfi að gefa ýmislegt eftir ef á að mynda ríkisstjórn um stóru málin. „Og það eru allir mjög meðvitaðir um það.“

Ef viðræðurnar leiða til stjórnarmyndunar verður meirihlutinn aðeins einn þingmaður. „Ég hef sjálf litið á það þannig að við verðum að ábyrgjast hvert og eitt okkar lið, okkar flokk, í þessu samstarfi. En þetta hangir líka á því ð við séum reiðubúin ekki bara að gefa eftir í samtali hvert við annað heldur líka við aðra flokka á Alþingi, að við leitumst við að skapa breiðari samstöðu um mál.“