Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.
Verða að borga fyrir sóttkví í húsi á vegum stjórnvalda
15.03.2020 - 09:44
Yfirvöld í Beijing, höfuðborg Kína, tilkynntu í dag að ferðalangar sem koma til borgarinnar frá útlöndum verði að fara í tveggja vikna sóttkví á þar til gerðum stöðum frá og með morgundeginum. Ferðamenn hafa hingað til getað farið í tveggja vikna heimasóttkví en það verður hér eftir aðeins leyft í undantekningartilfellum. Sextán af tuttugu COVID-19 tilfellum sem greindust í gær bárust til Kína frá útlöndum.
Borgaryfirvöld tilkynntu í dag að komið yrði upp sóttkvíarstöðvum þar sem fólki sem kæmi frá útlöndum yrði safnað saman. Ferðalangarnir verða að greiða sjálfir fyrir dvöl sína á þeim stöðum.
Tilfellum COVID-19 hefur fækkað mjög í Kína, þaðan sem veiran breiddist út upprunalega. Nú berast tilfelli hins vegar til Kína frá útlöndum og við því hafa stjórnvöld reynt að bregðast. 111 hafa borið veikina með sér til landsins.
Yfir 80 þúsund hafa smitast af COVID-19 í Kína og nærri 3.200 látist af völdum sjúkdómsins.