Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Venjulega segði ráðherra af sér

27.11.2011 - 19:10
Mynd með færslu
 Mynd:
„Í öllu venjulegu samhengi myndi ráðherra segja af sér,“ segir Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði, um þá stöðu sem Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er kominn í eftir að forræði yfir endurskoðun á lögum um stjórn fiskveiða var tekin af honum.

„Það veltur svolítið á honum sjálfum,“ segir Gunnar Helgi um hvað verður um Jón Bjarnason. Hann segir að með því að taka forræði yfir endurskoðun á stjórn fiskveiða af Jóni hafi verið lýst miklu vantrausti á störf hans og málatilbúnað. „Hann er augljóslega í svolitlum vanda.“

Eitt af því sem kann að ráða því hvað gerist næst eru viðbrögð Jóns. „Er hann tilbúinn að fella ríkisstjórn? Það er í raun eitthvað sem enginn getur svarað nema hann sjálfur.“ Gunnar Helgi gerir þó ekki ráð fyrir að forsætisráðherra víki Jóni úr ríkisstjórn. „Miðað við það að forsætisráðherra er ekki búinn að gera það, er ekki líklegt að hann geri það nema Jón þverskallist við,“ til dæmis með því að krefjast yfirráða yfir málinu eða neiti að fylgja stefnu stjórnar í öðrum málum.

 

Ráðherrar noti veikleika til að móta eigin stefnu

„Það sem við erum að sjá eru víbrur frá veikum undirstöðum,“ segir Gunnar Helgi um deilur stjórnarflokkanna síðustu daga um stjórn fiskveiða, kolefnisskatt og jarðakaup Huangs Nubos. Þó samstarf flokkanna hafi um sumt gengið vel sé staðan sú að ríkisstjórnin hafi aðeins eins atkvæðis meirihluta á Alþingi. Þetta hafi vissir ráðherrar getað notað til að móta sína eigin stefnu.