Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Velgengni Sjálfstæðisflokks mestu vonbrigðin

30.10.2016 - 11:27
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er ótrúlega jákvæð margföldun á þingstyrk og við eigum svolítið eftir að setjast niður og skoða tölurnar töluvert betur, til að sjá hvernig mun síðan ráðast úr þessu. En þetta er rosalega jákvætt,“ segir Smári McCarthy, einn af nýjum þingmönnum Pírata en hann verður fjórði þingmaður í Suðurkjördæmi

Ekki slæm niðurstaða

Hann segist ekki geta kallað úrslit kosningana slæma niðurstöðu fyrir flokkinn, þrátt fyrir að hann hafi um langt skeið mælst langstærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum.

„Maður hefði kannski viljað sjá kjörsóknina betri og það er alltaf hætta á því að flokkur eins og okkar, svona frjálslyndur flokkur sem höfðar til yngra fólks komi illa út. En við getum ekki talað um þetta sem slæma niðurstöðu, þetta er kannski bara ekki alveg það albesta sem hefði getað komið út úr kosningunum.“

Fleiri valkostir í dag en í gær

Píratar voru þegar farnir að ræða hugsanlegt stjórnarsamstarf við aðra flokka í stjórnarandstöðu fyrir kosningar, en nú þegar úrslit kosninganna eru ljós er ekki víst að af því samstarfi verði.

„Það eru miklu fleiri valkostir á borðinu en þeir voru í gær. Við þurfum að setjast niður, ræða þetta innan okkar flokks og við aðra flokka. Síðan er valdið fyrst og fremst hjá forsetanum,“ segir Smári, sem segist eiga erfitt með að segja til um hver ætti að leiða viðræður um nýja ríkisstjórn. Samstarf við Sjálfstæðisflokkinn sé útilokað.

„Við útilokuðum samstarf við Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar og við víkjum ekki frá því. Það eru kannski stærstu vonbrigðin í þessum kosningum, að það er verið að verðlauna Sjálfstæðisflokkinn fyrir sína aðkomu að spillingamálum og þeim fjórum ráðherrum flokksins sem komu að spillingamálum á síðasta kjörtímabili. Ég veit ekki alveg hvernig við fáumst við það, þarf þarf að koma í ljós. Þetta er rosalega áhugaverð staða sem er komin upp,“ segir Smári.

Rögnvaldur Már Helgason
Fréttastofa RÚV