Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vel heppnuð sýning sem þó mætti rista dýpra

Mynd: Garpur / Garpur

Vel heppnuð sýning sem þó mætti rista dýpra

17.02.2020 - 15:15

Höfundar

Uppfærslan Er ég mamma mín? er vel uppbyggð og að mörgu leyti vel lukkuð sýning, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi. Hún sé fyndin og umgjörð öll til fyrirmyndar, en á móti komi að persónusköpun sé á köflum ótrúverðug og kafað hefði mátt dýpra.

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Er ég mamma mín? er nýjasta uppfærsla kvenfélagsins Garps, leikhóps sem hefur starfað með hléum frá árinu 2003 og sett upp margar eftirminnilegar sýningar. Fyrsta sýning sem undirritaður sá undir formerkjum Garps var í Hafnarfjarðarleikhúsinu árið 2006, en þá leikstýrði Þórhildur Þorleifsdóttir sýningu byggðri á Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur. Svo ég færi okkur aðeins nær í tíma, þá gagnrýndi ég annað verk eftir kvenfélagið tíu árum síðar, en það var Sóley Rós ræstitæknir, sem María Reyndal leikstýrði og hún skrifaði einnig handritið með Sólveigu Guðmundsdóttur sem fer með aðalhlutverk í verkinu. Um það skrifaði ég í Stundina: Sólveig Guðmundsdóttir stimplaði sig inn sem drottning sjálfstæðu senunnar með flutningi sínum í Tjarnarbíói. Ræstitæknirinn Sóley var ótrúlega sjarmerandi, fyndin og einlæg, og ævisaga hennar sem hefði dugað í nokkur verk, hreyfði bersýnilega mjög við áhorfendum og vakti heitar umræður. Það voru fleiri sammála mér, en Sólveig fékk Grímu fyrir frábæra frammistöðu sína.

Eða er ég kannski pabbi minn?

Leikverkið Er ég mamma mín? í Borgarleikhúsinu er eins og sagan um ræstitækninn knáa skrifuð af Maríu Reyndal og í burðarhlutverkum rétt eins og í leikverkinu um Sóleyju Rós eru Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Í þessu verki leika þau eins og stundum áður par, eða öllu heldur tvö pör, því að Sólveig bregður sér í hlutverk Elínar læknis á Landspítalanum, og móður hennar á áttunda áratugnum, en Sveinn Ólafur leikur pabba Elínar í senum fortíðarinnar og svo eiginmann Elínar, Guðjón í nútímanum. Rosknari útgáfurnar af móður og föður Elínar leika Sigurður Skúlason og Kristbjörg Kjeld. Það má segja að María Ellingsen leiki svo alla aðra, hina sjálfstæðu Rachel, amerísku listakonuna sem kennir móðurinni að standa með sjálfri sér á áttunda áratugnum, og Áslaugu, samstarfskonu Elínar á Landspítalanum í nútímanum. Tvö hlutverk eru fyrir unglinga í verkinu, en fermingaveislur eru stór hluti af þræðinum í sögunni bæði á áttunda áratugnum og í nútímanum, Arnaldur Halldórsson leikur Matthías, son Elínar, og Katla Njálsdóttir leikur Elínu þegar hún er ung.

Í stuttu máli sagt má segja að sagan fjalli um samband Elínar, eða Ellu eins og hún er yfirleitt kölluð í verkinu, við móður sína og samband þeirra tveggja við eiginmenn sína. Verkið kannar með þessu hvernig kynjahlutverk hafa breyst í áranna rás. Faðir Ellu sinnir engum húsverkum, hann er eins og harðstjóri sem fær að ráða öllu þó hann sé oft manípúleraður, og hefur lágt álit á gáfnafari kvenna. Guðjón, eiginmaður Ellu, er nánast fullkomin andstæða, stuðningsríkur maður sem bæði eldar og þrífur svo að Ella geti haldið blómstrandi, en stressandi, frama inn á spítalanum gangandi. Þó svo titill sýningarinnar sé Er ég mamma mín? gæti Ella allt eins spurt sig hvort hún sé kannski meira lík föður sínum. Maður veltir því að minnsta kosti fyrir sér hvort Guðjón eigi eftir að gera það sama og móðir Ellu á endanum og ganga út úr hjónabandi sem lætur hann alltaf draga stutta stráið.

Vel tímasett tímaflakk tvívíðra

Handrit Maríu er mjög vel uppbyggt. Það er margt í fortíðinni sveipað dulúð, og ekki allt sem sýnist í báðum sögunum sem gerast samhliða. Sýningin flæðir mjög vel, er oft mjög fyndin, og missir hvergi dampinn heldur útdeilir upplýsingum til okkar í áhorfenda á hárréttum augnablikum. Þó fannst mér ókostur hversu tvívíð persónusköpunin gat stundum verið. Verkið er tragíkómedía og persónurnar á mörkum skopstælinga en karlpersónurnar eru oft á barmi þess að verða ótrúverðugar vegna þess hversu einfeldningslegar þær eru.

Það er þó ekki hægt að segja annað en að Sveinn Ólafur og Sigurður geri gott úr þeim efnivið sem þeir fá, þeir standa sig mjög vel og það sama má segja um hina leikarana líka. Kristbjörg Kjeld var gífurlega fyndin sem ráðríka móðirin, hrædd um að missa sjálfstæðið sem hún þurfti að berjast fyrir alla ævi við það vera neydd í þjónustuíbúð, og María Ellingsen mjög fín sem samstarfskona Ellu, en talsvert meira spennandi þegar hún setti á sig hattinn hennar Rachel. Sólveig Guðmundsdóttir er að mínu mati ein besta leikkona á Íslandi í dag, það er alltaf gaman að sjá leikara reyna á sig, og sú ákvörðun að láta hana og Svein leika tvö pör á tveimur tímabilum var mjög góð, þó að það sé að einhverju leyti kómískt að sjá Svein verða að áttunda áratugs pabba með því að bæta við sig bumbu og Sólveigu með því að vefja grænum kjól utan um sig í flýti, þá ganga þær breytingar snurðulaust.

Umgjörð sýningarinnar er vel heppnuð. Tónlistin hjá Úlfi Eldjárn og sviðsmynd Egils Ingibergssonar gefa verkinu þann ramma sem það þarf, það kemur vel út að hafa alla sviðsmuni hangandi á veggjum, svo sem glös, diska, myndir og taflborð.

Það var mikið hlegið og sýningin uppskar mikið lófaklapp, sem hún átti að mestu leyti skilið. Stundum fannst mér textinn stafa full mikið ofan í mig, í gegnum leikritið heyrum við karlrembuleg viðhorf predika úr útvarpinu yfir hausamótunum á persónum verksins, verkið hefst á tilvitnunum í Rósu Ingólfsdóttur og Hannes Hólmstein þar sem talað er um að konur hugsi í hringi og karlar í línu. Hjákátleg viðhorf, en einhvern veginn fæ ég á tilfinninguna sér í lagi eftir að hafa séð lokalag síðasta Áramótaskaups, að næmar og pólitískt þenkjandi listamannssálir séu að gefa Hannesi alltof mikið pláss í höfðinu á sér, á tímum þar sem skoðanir hans hafa ekkert vægi.

Endurtekur sagan sig?

Leikrit Maríu kemur punkti sínum vel til skila, sýningin er skemmtileg, fyndin, vel leikin og önnur atriði eins og tónlist, búningar og leikmynd ganga upp. En ég fæ ekki komist hjá því að velta fyrir mér hvort það hafi verið kafað nógu djúpt. Hjónaband pabba og mömmu við upphaf níunda áratugarins var sennilega dauðadæmt um leið og mamman fékk snefil af sjálfstraustinu sem þurft til að standa á eigin fótum, en það er mörgu ósvarað með hjónaband Ellu og Guðjóns, eru þau hamingjusöm eða er þeirra samband jafn dauðadæmt? Við fáum kannski aldrei að vita það.