Sýningin Lífsblómið fjallar um fullveldi Íslands í 100 ár og var sett á laggirnar um miðjan júlí síðastliðinn. Sýningin er samstarfsverkefni Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Þjóðskjalasafns Íslands og Listasafns Íslands. Myndlistaverk, ýmis skjöl og handrit frá þessum stofnunum mynda kjarnann í sýningunni. Titill sýningarinnar, Lífsblómið, er sóttur í skáldsögu Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk, sem gerist á þeim tíma er Ísland varð fullvalda ríki.
Gestir Lestarklefans ræddu um sýninguna og voru sammála um að sérlega vel hafi tekist til. Þau hvetja landsmenn til að sækja sýninguna áður en henni lýkur. Pétur Húni Björnsson þjóðfræðingur, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona og Óskar Jónasson kvikmyndaleikstjóri voru spurð af Guðna Tómassyni hvað þeim þætti um fullveldissýninguna og svaraði Pétur Húni því til að hjarta sýningarinnar væri vissulega handritin. „Þau voru eins konar krúnudjásn í miðjunni. Sem handritin eru auðvitað. Handritunum veifuðu Íslendingar hve mest í sjálfstæðisbaráttunni. Hinar einstöku íslensku miðaldabókmenntir, þær gera okkur að þjóð meðal þjóða. Þetta var áhrifamikil sýning, það var margt sem kom manni á óvart. Þetta er ekki glansmynd. Það er margt dregið fram en þetta snýst að mörgu leyti um árið 1918. Það var auðvitað eitt svaðalegasta ár síðustu aldar á Íslandi, með frostavetrinum mikla, spænsku veikinni og lok heimsstyrjaldar. Svo gýs Katla, svona til að toppa þetta,“ segir þjóðfræðingurinn Pétur Húni.